Flokkur fólksins leggur fram frumvarp um afnám verðtryggingar og tímabundið þak á vísitölu neysluverðs

Inga Sæland er formaður Flokks fólksins

Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp á þingi um afnám verðtryggingarinnar og tímabundið þak á vísitölu neysluverðs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum til fjölmiðla í dag. Í tilkynningunni segir að það hafi alltaf verið á stefnuskrá flokksins að afnema verðtrygginguna og það hafi aldrei verið brýnna en nú að vinna í því máli í ljósi aðstæðna í samfélaginu

Ríkisstjórnin boðaði aðgerðir í átt að afnámi verðtryggðra lána í tengslum við gerð lífskjarasamningana en nú hefur komið í ljós að ekki á að ganga langt í þeim efnum. Krónan hefur veikst töluvert það sem af er ári og fjöldi fólks hefur misst vinnu. Þrátt fyrir að standa í skilum við skuldbindingar sínar mega lántakar búast við því að höfuðstóll lána þeirra geti hækkað umtalsvert með litlum fyrirvara. Þetta raungerðist í kjölfar efnahagshrunsins og falli krónunnar árið 2008 þegar skuldir heimilanna hækkuðu verulega á skömmum tíma með þeim afleiðingum að fjöldi fólks missti heimili sín. Þó Seðlabanki Íslands spái ekki verðbólgu þá hefur þjóðin sjaldan verið eins berskjölduð fyrir áhrifum hennar og nú. Það er því nauðsynlegt að tryggja heimili landsins fyrir öðru verðbólguskoti. Þá er það nú komið í hlut Alþingis að efna gefin loforð ríkisstjórnarinnar, í tengslum við gerð lífskjarasamninganna, um að afnema verðtrygginguna“ segir í tilkynningunni.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til bann við verðtryggðum fasteigna og neytendalánum og vegna þess að einungis sé hægt að setja slíkt bann á ný lán er gert ráð fyrir þaki á vísitölu neysluverðs, svo áhrif verðtryggðra lána hafi minni áhrif á þá sem nú þegar séu með slík lán. Nánar má lesa um frumvarpið með því að smella hér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila