Fylgjast með hvort ferðamenn sem eru á leið að gosstöðvunum séu að virða sóttvarnarreglur

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sent frá sér tilkynningu þar sem sérstaklega kemur fram að vel verði fylgst með því hvort ferðamenn sem koma að gosstöðvunum á Reykjanesi séu að fara að sóttvarnareglum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Í tilkynningunni segir að í kvöld verði sami háttur hafður á og gert var í gær að loka Suðurstrandavegi klukkan 21:00 og að svæðið við gosstöðvarnar verði rýmt á miðnætti. Lögreglan hefur að undanförnu haft töluverðar áhyggjur af hegðun fólks við gosstöðvarnar og eru brögð að því að þar hafi fólk verið undir talsverðum áhrifum áfengis. Þá sé talsverður sóðaskapur á svæðinu þar sem fólk hefur skilið eftir sig talsvert af rusli. Þá þurfi að varast hinar ýmsu hættur á svæðinu.

Lögregla biður fólk því að hafa neðangreind atriði í huga:

  • Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgosins með vindinn í bakið.
  • Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í dalnum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
  • Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni.
  • Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru útsettari fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.
  • Veðurstofan hefur sett upp veðurstöð við gosstöðvarnar sem sýnir athuganir á klukkustunda fresti.
  • Hér eru ráðleggingar frá Umhverfisstofnun vegna mengunar frá gosstöðvum og hlekkur á loftgaedi.is sem sýnir stöðu á loftgæðum í byggð.
  • Ábending til foreldra að taka ekki lítil börn með sér á svæðið en landið er nokkuð erfitt yfirferðar og eins með hliðsjón af gasmengun við eldstöðvarnar.
  • Vegna hálku á gönguleið er fólki ráðlagt að taka göngubrotta með.  Klæða sig vel en strigaskór til að mynda henta engan vegin við aðstæður sem þarna eru.
  • Hafið meðferðis andlitsgrímur og sprittbrúsa og gætið að nálægðarmörkum vegna Covid-19.
  • Suðurstrandarvegi verður lokað kl. 21 í kvöld eða fyrr ef aðstæður breytast til hins verra á svæðinu.  Viðbragðsaðilar munu rýma svæðið kl. 24 eða á miðnætti.  Það athugist að við lokunarpóst á Suðurstrandarvegi verður bílum sem gangandi fólki jafnframt vísað frá kl. 21 í kvöld.  Þá er biðlað til göngufólks að það hefji göngu frá eldstöðvunum niður á þjóðveg tímanlega fyrir miðnætti.
  • Lögregla verður með stöðvunarpóst á Suðurstrandarvegi austan við Grindavík.  Þar verða allir stöðvaðir og athugað sérstaklega með ferðamenn vegna sóttvarnareglna.
  • Stefnt er að því að halda svæðinu opnu næstu daga á tímabilinu frá 9 að morgni til kl. 21 á kvöldin.
  • Í dag er útlit fyrir norðan og síðar norðaustan 8-13 m/s og leggur mengun þá til suðurs og suðsuðvesturs frá gosinu og þá ekki yfir byggð.
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila