Græna byltingin – Velkomin til „lóðrétta skógarins“ – paradís kínverskra umhverfissinna –

Í afar spennandi og jákvæðu umhverfisverkefni í Kína voru blokkaríbúðir hannaðar í grænum umhverfisstíl með fallegum görðum á hverjum svölum. Var kaupendum og leigjendum boðið að vera í nágrenni við náttúruna, þótt í steinsteyptri stórborg væru, í þar til sérstaklega hönnuðum fjölbýlishúsum „lóðrétta skógarins.“ Sala 826 íbúða gekk mjög vel og voru allar íbúðirnar seldar í apríl í ár að sögn fasteignasalans. En í stað nútíma umhverfisparadísar líkjast háhýsin mest dapurlegum byggingum í niðurníðslu eins og sjá má í sumum eldri heimsendakvikmyndum. Aðeins örfáar fjölskyldur hafa lagt í að flytja inn í þennan vistvænasta hluta Chengdu Qiyi borgarinnar. Ástæðan er m.a. sögð vera sú að moskítóflugur hafa þyrpst í stórum sveimum í ört stækkandi frumskóginn og tekið sér þar bólfestu með vistvænar eignarkröfur umfram leigusamninga og þinglýsingar kaupenda.

Velkomin til frumskógarins

Samkvæmt staðbundnum fréttum var þessi græni suðvesturhluti borgarinnar byggður 2018 með sérstökum umhverfisvænum svölum með vaxtargóðum og vænum gróðri. En áður en íbúðareigendur og leigugestir mættu á staðinn höfðu grænu plönturnar tekið völdin og á svölunum hefur gróðurinn vaxið bæði lóðrétt og lárétt og dafnað vel með hangandi greinum yfir svalahandrið eins og myndin sýnir. Virðist skammt vera í að Tarsan sjáist sveifla sér í tjánum að ekki sé minnst á Göngufara en trúlega láta þeir í minni pokann fyrir öllum flugunum. Á sumum íbúðargluggum er búið að líma pappa fyrir rúðurnar – kannski til að sleppa við að sjá skóginn fyrir utan, en á nokkrum svölum má sjá snyrtilegar plöntur, svalahúsgögn og logandi ljós innandyra.

Samkvæmt ríkismálgagni kínverska kommúnistaflokksins Global Times hafa einungis um 10 fjölskyldur flutt inn í „lóðrétta skóginn“ fram að þessu. Má segja að aðrir fasteignaeigendur séu ekki grænir af öfund í garð þeirra sem eiga íbúðir í paradísahverfi grænu byltingarinnar í Chengdu Qiyi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila