Grindvíkingar brattir þrátt fyrir skjálfta – Þetta er auðvitað ónotalegt

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur

Grindvíkingar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að jarðskjálftum, enda fáir aðrir á landinum sem hafa upplifað jafn mikinn fjölda sterkra skjálfta undanfarin ár líkt og Grindvíkingar. Í síðdegisútvarpinu í dag ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Fannar Jónasson bæjarstjóra í Grindavík.

Fannar segir sunnudaginn hafa verið sérlega ónotalegan en þann dag reið stór skjálfti upp á 5,5 rétt við bæjarjaðarinn.

„ég held að það sé samdóma álit flestra hér að þetta hafi verið sterkasti skjálfti sem þeir hafi upplifað síðustu tvö og hálft ár og við merkjum það á því að það var meira um að munir féllu um koll, myndir af veggjum og varningur í búðum heldur en nokkurn tíma áður“

Hann segir að ekki hafi orðið alvarlegar skemmdir á húsum í skjálftunum, þó hafi komið sprungur á einstaka stað í gólfum svo hafa dottið kannski niður loftplötur en engin meiðsli á fólki sem er það sem skipti mestu máli.

Tillit tekið til náttúruhamfara þegar byggt er

Í Grindavík búa rúmlega 3600 manns og virðast tíðir jarðskjálftar ekki hafa áhrif á hvort fólk vilji búa þar, það beri nýtt hverfi sem verið er að byggja vott um og eru heimamenn afar brattir. Þá hefur húsnæðisverð hækkað eins og annars staðar og því virðist sem skjálftarnir hafi engin áhrif hvað það varðar. Hafa þurfi þó í huga hvar byggt sé og taka tillit til jarðhræringa og að byggt sé á svæðum þar sem ólíklegt sé að hraun geti runnið og ógnað mannvirkjum.

„þetta þarf að vakta mjög vel og við gerum það og allar viðbragðs og rýmingaráætlanir eru í samræmi við það mat sem gert hefur verið“

Fannar segist hafa mikinn skilning á því að fólki á höfuðborgarsvæðinu finnst skjálftarnir óþægilegir, sér í lagi þeir sem urði í gær og nótt en svo vildi til að þeir skjálftar fundust mun minna í Grindavík.

„það er vegna þess að þess að það er eitthvað brotabelti eins og vísindamenn hafa lýst þessu á milli Grindavíkur og kleifarvatns sem deyfir áhrifin þannig við gátum eiginlega sofið rótt í nótt“segir Fannar.

Gasmengun barst ekki til Grindavíkur

Hann segir Grindvíkinga hingað til hafa verið heppna því að til dæmis hafi gasmengun frá gosinu í Geldingadölum ekki lagst yfir Grindavík þegar þar gaus.

„þetta var þannig að gasið steig upp í loftið, færðist undan vindi og lagðist svo niður annars staðar langt frá Grindavík“.

Í þættinum ræddi Arnþrúður einnig við Bjarna Jón Pálsson verkfræðing hjá Eflu sem gjörþekkir til burðarþols húsa á Íslandi. Hann segir að það þurfi ekki að óttast að hús hér á landi hrynji í skjálftum og því sé öruggast að halda sig innan dyra sé maður þar staddur þegar skjálfti ríður yfir. Það sé eðilegt að þeir sem séu á efstu hæðum háhýsa finni meira fyrir skjálftanum en hættan sé þó engu meiri en í lægri húsum.

Hús á Íslandi örugg

Hættan felist aðallega í innanstokksmunum sem geta fallið á fólk í skjálftum og því þurfi að huga vel að því. Eldri húsum sem hafa litla járnabindingu þarf heldur ekki að óttast því í þeim eru veggir þykkari og fleiri og því haldist þau vel saman. Hvað timburhúsin varðar þá taka þau minna á sig högg þar sem þau eru léttari og því sé heldur ekkert sem óttast þurfi þar.

Að lokum benti Bjarni á að fólk ætti að kynna sér vel vef Almannavarna þar sem fjallað er um viðbrögð við jarðskjálftum en hægt er að skoða þann vef með því að smella hér.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila