Guðlaugur Þór á jafnréttisráðstefnu Pekingáætlunarinnar – Á sama tíma eru framin mannréttindabrot í Kína

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók á dögunum þátt í alþjóðlegri jafnréttisráðstefnu í tengslum við átaksverkefnið Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum) sem haldin var á vegum UN Women og mexíkóskra stjórnvalda. 

Guðlaugur Þór sagði á fundinum að mikilvægt væri að efla forvarnaraðgerðir til þess að útrýma kynbundnu ofbeldi og standa vörð um framfarir á sviði jafnréttismála.

Við höfum hér einstakt tækifæri til að sameina krafta okkar með fjölbreyttum hópi hagaðila og eiga samstarf um leiðir til að knýja fram umbreytandi aðgerðir í þágu jafnréttis. Alþjóðlegt samtal um brýnar aðgerðir í jafnréttismálum þarf að eiga sér stað núna,“ sagði hann meðal annars.

Markmið ráðstefnunnar í Mexíkó er að kynna og kalla eftir stuðningi við stefnumið aðgerðabandalaga átaksverkefnisins og gera samtökum ungmenna- og kvennahreyfinga kleift að eiga samtal við mismunandi hagaðila frá aðildaríkjum, einkageiranum og alþjóðastofnunum.

Átaksverkefnið, Kynslóð jafnréttis, hófst árið 2020 í tilefni 25 ára afmælis fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Á ráðstefnunni var samþykkt pólitísk yfirlýsing og framkvæmdaáætlun um réttindi kvenna, Pekingáætlunin, sem meðal annars byggist á ákvæðum kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1979, um afnám allrar mismununar gegn konum.

Það kann að hljóma kaldhæðnislega að framkvæmdaráætlun um réttindi kvenna sé kennd við Peking, enda framganga kínverskra stjórnvalda gagnvart Úígúrakonum hreint ekki til fyrirmyndar en þær hafa meðal annars verið skikkaðar í ófrjósemisaðgerðir. Ekki er ljóst hvort Guðlaugur Þór ætlar að gagnrýna meðferð kínverskra stjórnvalda gagnvart Úígúrum, að minnsta kosti kom engin slík gagnrýni fram á ráðstefnunni nú.

Þá eru vel þekkt mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda gagnvart eigin þegnum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila