Gyða Valtýsdóttir tónskáld og Sellóleikari heldur stórtónleika í Gamla bíói

Gyða Valtýsdóttir tónskáld og Sellóleikari heldur stórtónleika þann 7.júlí næstkomandi í tilefni af útgáfu fjórðu sólóbreiðskífu hennar, OX.

Gyða Valtýsdóttir hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir tónlistarflutning þar sem sköpunarkrafturinn brýst fram með afgerandi rödd, frumlegum hljóðfæraleik og miklum persónutöfrum

Í tilkynningu segir að tónlistarflutningur Gyðu sé einstaklega áhrifaríkur viðburður og einstök upplifun að heyra víðfeðman og undurfagran hljóðheim hennar í frumlegum lagasmíðum hennar og útsetningum.

OX fékk verðlaun fyrir upptökustjórn ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum, en hinar þrjár sólóplötur Gyðu hafa allar verið verðlaunaðar sem plötur ársins í opnum flokki.

Litháenska hljómsveitin Meropé mun stíga á svið á undan Gyðu að hita upp salinn, en tónlist þeirra er líka töfrum líkust, en byggir á samslætti nýrra tóna í bland við ævaforna litháenska þjóðlagatónlist.

Gyða Valtýsdóttir hefur komið víða við á tónlistarferlinum. Hún var einn af meðlimum hljómsveitarinnar múm og hefur auk þess iðkað klassíska tónlist frá barnsaldri. Hún lauk tveimur mastersgráðum í klassískum sellóleik og frjálsum spuna frá tónlistarskólanum í Basel, Sviss. Gyða hefur unnið með fjölmörgu listafólki, samið fyrir leikrit, dansverk, kvikmyndir og leikið inn á fjöldan allan af hljómplötum um allan heim. Tónleikarnir fara fram sem fyrr segir í Gamla bíói þann 7.júlí næstkomandi kl.21:00.

Deila