Hæstiréttur Íslands staðfestir 480 milljón króna sekt á Mjólkursamsöluna vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest 480 milljón króna sekt sem Mjólkursamsölunni ber að greiða vegna alvarlegra brota á sameppnislögum.

Í dóminum er staðfest að sú verðmismunun sem Mjólka ehf. og síðar Mjólkurbúið Kú ehf. sættu af hálfu MS hafi verið veruleg, en þessi fyrirtæki hafi þurft að greiða allt að 17% hærra verð fyrir hrámjólk en Kaupfélag Skagfirðinga svf. (KS) og dótturfélag þess.

Taldi Hæstiréttur þessa mismunun hafa veitt KS og dótturfélagi þess óeðlilegt forskot í samkeppni. Í ljósi yfirburða áfrýjanda og „veikrar samkeppni“ á hinum skilgreinda markaði hafi MS með þessu vegið mjög að samkeppnisstöðu þeirra keppinauta fyrirtækisins sem voru háð því um aðgang að mjólk.


Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að MS sé með mikla þekkingu á mjólkuriðnaði og mjólkurviðskiptum og í reynd með yfirburðastöðu á mjólkurmarkaði. Í því ljósi hafi háttsemi MS verið „sérlega alvarleg“. Taldi Hæstiréttur að fyrrgreind verðmismunun yrði ekki réttlætt með vísan til ákvæða búvörulaga. MS hafi því brotið „með alvarlegum hætti“ gegn banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.


Í dómi Hæstaréttar kemur fram að brot MS gegn 11. gr. samkeppnislaga hafi verið alvarlegt auk þess sem það hafi staðið lengi og verið augljóslega mjög til þess fallið að raska samkeppni. Þá hafi það lotið að mikilvægri neysluvöru og á þann hátt snert almenning í landinu. Með vísan til þess var staðfest sú niðurstaða Landsréttar að MS beri að greiða 440 m. kr. sekt vegna brotsins.

Þá kemur fram í dómnum staðfesting á að MS hafi leynt fyrir Samkeppniseftirlitinu gagni sem félaginu hafi mátt vera ljóst að hefði grundvallarþýðingu fyrir rannsókn málsins, en stöðu sinnar vegna hafi félagið borið „sérlega ríkar skyldur til að upplýsa um grundvöll viðskiptakjaranna“.

Hafi MS með þessu flækt rannsókn Samkeppniseftirlitsins og orðið til þess að fyrri ákvörðun eftirlitsins ónýttist. Með vísan til þessa var staðfest 40 milljón króna sekt vegna brotsins.

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir dóminn styrkja stöðu bænda og neytenda :

Dómur Hæstaréttar hefur mikla þýðingu fyrir starfsumhverfi í framleiðslu mjólkurafurða hér á landi og styrkir stöðu bænda og neytenda. Þannig staðfestir dómurinn dómurinn mikilvægi samkeppni á mjólkurmarkaði og að MS er með öllu óheimilt að grípa til aðgerða sem miða að því að smáir keppinautar nái ekki fótfestu eða hrökklist út af markaðnum.
Reynslan sýndi að samkeppnislegt aðhald frá m.a. Mjólku var til hagsbóta fyrir bæði bændur og neytendur og dómur Hæstarréttar dregur skýrt fram að það felur í alvarlegt brot að raska slíkri samkeppni

Þá segir Páll :

Háttsemi MS má rekja til túlkunar fyrirtækisins á því svigrúmi sem mjólkurafurðastöðvum var veitt með breytingum á búvörulögum árið 2004, þegar þeim var heimilað að sameinast og hafa með sér samstarf umfram almennar heimildir samkeppnislaga og umfram það sem gildir um sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndum okkar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila