Halda áfram stuðningi við nýsköpun

Alþingi hefur samþykkt áframhaldandi stuðning við nýsköpun í formi 35% endurgreiðslu skatta til rannsókna- og þróunarverkefna. Endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar var upprunalega hækkað úr 20% í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í tengslum við aðgerðir stjórnvalda gegn heimsfaraldri árið 2020. Þessi hækkun var aðeins tímabundin og gekk því til baka um síðustu áramót. Á móti kveður stjórnarsáttmáli á um að hækkunin verði gerð varanleg og nú liggur fyrir framlenging út þetta ár.

Í tilkynningu segir að markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna sé að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar og/eða endurgreiðslu vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni. Sífellt fleiri fyrirtæki hafi nýtt sér þennan stuðning og framlög til málaflokksins hafa aukist til muna. Ljóst er að þessi stuðningur hefur spilað lykilhlutverk í öflugum vexti nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og aukinni samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði.

Jákvæð áhrif skattahvata á nýsköpun á Íslandi

Þá segir að útflutningstekjur íslensks hugverkaiðnaðar hafi tvöfaldast frá árinu 2018 auk þess sem æ fleiri fyrirtæki fjölgi stöðugildum hér á landi frekar en í öðrum löndum. Þessa jákvæðu þróun megi að mörgu leyti rekja til stuðnings stjórnvalda við nýsköpun með hvötum á borð við skattaívilnun og endurgreiðslu. Gróska í nýsköpun varð einnig áberandi í heimsfaraldri þar sem slíkir hvatar urðu til þess að íslensk fyrirtæki á sviði rannsókna og þróunar blésu til sóknar fremur en að draga saman seglin. Þá hafa erlend fyrirtæki leitað í auknum mæli til Íslands vegna þess frjóa nýsköpunarumhverfis sem hér þrífst.

„Stuðningur við rannsóknir og þróun fyrirtækja er fjárfesting í mannauði, nýsköpun og þekkingu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem fagnar ákvörðun um varanlega hækkun endurgreiðsluhlutfalls. „Allt eru þetta lykilþættir til að bæta lífsgæði og auka hagvöxt í landinu.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila