Halda ráðstefnu í Reykjavík um kjarnorkuafvopnun

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í samstarfi við íslensk stjórnvöld, Harvard háskóla, friðarrannsóknarstofnunina í Frankfurt og Wilson Center í Washington DC standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu laugardaginn 14. maí í Veröld – húsi Vigdísar á lokadegi ACONA námskeiðsins sem stendur nú yfir.

Fram kemur í tilkynningu að á ráðstefnunni séu nýjar og stefnumótandi rannsóknir á áskorunum á sviði afvopnunarmála samtímans í forgrunni. Markmiðið sé að skapa vettvang fyrir skapandi lausnir og opið samtal á milli helstu sérfræðinga í friðar- og afvopnunarmálum.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru Catherine Ashton, fyrrverandi utanríkismálastjóri Evrópusambandsins sem leiddi meðal annars kjarnorkuviðræðurnar við Íran, Francesca Giovanni sem leiðir verkefnið Project on Managing the Atom við Belfer Centre við Harvard Kennedy School of Government, Elayne Whyte, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Kosta Ríku en í starfi sínu sem sendifulltrúi Kosta Ríka hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf leiddi hún kjarnorkuafvopnunarmálin og Mariana Budjeryn fra Úkraínu sem er fræðimaður við Belfer Center við Harvard Kennedy School of Government. Þá eru þátttakendurnir í námskeiðinu reynslumikið fólk sem ýmist starfar fyrir alþjóðastofnanir á sviði afvopnunarmála, stundar fræðimennsku eða vinnur sem diplómatar um allan heim.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila