Bæta lífsgæði og þjónustu við fólk með heilabilun

Frá vinstri: frú Eliza Reid, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ávarpaði í dag fund í Ketilshúsinu á Akureyri sem haldinn var til að marka upphaf verkefnisins Styðjandi samfélag. Fundinn ávörpuðu meðal annarra einnig frú Eliza Reid, sem er verndari Alzheimersamtakanna, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar.

Verkefnið miðar að því að gera einstaklingum með heilabilun kleift að lifa í Styðjandi samfélagi sem sýnir þeim og aðstandendum þeirra skilning, virðingu og aðstoðar eftir þörfum en Ásmundur Einar veitti samtökunum nýlega 6,5 milljón króna styrk.

Akureyrarbær er fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hefja vegferð á þróun og innleiðingu samfélags sem er vinveitt og meðvitað um þarfir fólks með heilabilun (e. dementia friendly community). Þá er með verkefninu vonast til þess að fordómar verði brotnir niður. Verkefninu sinna öldrunarheimili Akureyrar og Alzheimersamtökin.

Það er oft rætt um, og ég geri það sjálfur, að það þurfi þorp til að ala upp barn. Það er rétt. En þorpið hefur líka fleiri mjög mikilvæg verkefni. Verkefni sem ekki er endilega hægt að gera ráð fyrir að komi sjálfkrafa og að þekking sé til staðar án utanaðkomandi stuðnings. Verkefnið sem við fögnum og ræðum hér í dag, Styðjandi samfélag, einmitt hjálpar þorpinu, samfélaginu, að mæta fólki með heilabilun af þeirri virðingu og skilningi sem það á skilið.“  sagði Ásmundur Einar í ávarpi sínu í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru um 48 milljón manns í heiminum með heilabilunarsjúkdóm og á hverju ári bætast við um átta milljón tilfella. Hér á landi má ætla að hátt í fimm þúsund Íslendingar séu með heilabilunarsjúkdóm reiknað með verulegri fjölgun samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar. 

Ég bíð spenntur eftir að fylgjast með þróun þessa verkefnis og árangri og þá einnig að skoða í framhaldinu hvernig við getum í fleiri verkefnum í ætt við þetta, aukið heilsu og eflt nærumhverfi okkar og þjónustu sem leiðir til bættra lífsgæða fjölskyldna í landinu.“  Segir Ásmundur Einar.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila