Leggja til að innviðir sérnáms í heimilislækningum verði styrktir og bætt verði úr stöðu heilsugæslunnar í dreifbýli

Frá skilafundi nefndarinnar með ráðherra

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um framhaldsmenntun lækna og framtíðarmönnun læknisstarfa í heilbrigðiskerfinu gerir margvíslegar tillögur um umbætur og leiðir sem miða að því tryggja fullnægjandi mönnun á næstu áratugum. Ákvarðanir um hvaða sérnám stendur til boða og í hve miklum mæli hafa grundvallarþýðingu fyrir skipulag og mannafla íslensks heilbrigðiskerfis næstu áratugina að mati hópsins.

Runólfur Pálsson, formaður hópsins, sagði á fundi með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þegar hópurinn kynnti henni tillögur sínar, að það hefði verið kærkomið að ráðast í þessa vinnu. Miklar breytingar hafi orðið á störfum og starfsumhverfi lækna á liðnum árum og verkefnið í því ljósi bæði tímabært og þarft. Fram kom hjá Runólfi að full samstaða hefði verið innan hópsins um niðurstöður vinnunnar.

Í skýrslu starfshópsins segir að stór skref hafi verið stigin í þróun framhaldsmenntunar í sérgreinum lækninga hér á landi undanfarin ári. Ör framþróun hafi samhliða orðið á sérfræðinámi lækna á alþjóðlegum vettvangi. Nauðsynlegt sé að gæði námsins hér á landi standist samanburð við það sem  best þekkist hjá grannþjóðum og sé þannig fýsilegur kostur fyrir íslenska lækna:

Áframhaldandi uppbygging framhaldsmenntunar í sérgreinum lækninga krefst traustari innviða en nú eru fyrir hendi, meðal annars margvíslegrar aðstöðu innan og utan sjúkrastofnana. Þá er nauðsynlegt að efla umgjörð og stjórnsýslu framhaldsmenntunar, ekki síst með skilgreiningu lögbærs yfirvalds og styrkingu gæðaeftirlits og vottunar. Enn fremur þarf að skilgreina og tryggja fullnægjandi fjármögnun og umsýslu fjármuna í samræmi við þarfir og gæði. Loks er æskilegt að allt sérnám sem fram fer hér á landi hljóti alþjóðlega viðurkenningu, ekki síst svo unnt sé að stuðla að formlegu samstarfi við erlendar stofnanir um framhald sérnáms að loknu hlutanámi hér“ segir meðal annars í skýrslu hópsins.

Megintillögur hópsins eru sjö talsins og fela meðal annars í sér tillögu um nánari skilgreiningu á umgjörð og regluverks um framhaldsnám í sérgreinum, að sett verði á fót skrifstofa eða miðstöð framhaldsmenntunar, tillögu um heildstæða fjármögnun og fjárumsýslu sérnáms og að reynt verði að tryggja að sérnám sem fram fer á Íslandi, hvort heldur fullt nám eða að hluta verði að fullu viðurkennt annars staðar á Norðurlöndunum og í öðrum samstarfslöndum.

Setja þarf í forgang að styrkja enn frekar umgjörð og innviði sérnáms í heimilislækningum, styrkja tengsl við sérnám í heimilislækningum á Norðurlöndunum og skilgreina úrræði til að bæta stöðu heilsugæslunnar í dreifbýli, meðal annars með uppbyggingu framhaldsnáms í héraðslækningum, segir meðal annars í tillögum starfshópsins. Loks leggur hópurinn til að framkvæmd verði vönduð mannaflagreining og mannaflaspá sem snýr að læknum þar sem horft verði til allra sérgreina og aldurs.

Auk Runólfs sátu í starfshópnum Tómas Þór Ágústsson, tilnefndur af Landspítala, Sigurður E. Sigurðsson, tilnefndur af Sjúkrahúsinu á Akureyri, Elínborg Bárðardóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Salóme Ásta Arnardóttir, tilnefnd af Læknafélagi Íslands, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og Guðrún Ása Björnsdóttir, formaður Félags almennra lækna, án tilnefningar .

Athugasemdir

athugasemdir

Deila