Heilbrigðisráðuneytið segir engar ákvarðanir varðandi Ísland verði teknar á fundi WHO

Heilbrigðisráðuneytið segir að engar ákvarðanir verði teknar á fundi WHO sem haldinn verður í Genf dagana 22-28.maí næstkomandi. Þetta kemur fram í svari Margrétar Erlendsdóttur upplýsingafulltrúa Heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Útvarps Sögu um málið. Á fundinum á að ræða mögulega samhæfingu viðbragða 192 landa þegar upp koma heimsfaraldrar en markmiðið er að WHO taki yfir ákvörðunartöku landa í slíku ástandi verði málið samþykkt.

Í fyrirspurn Útvarps Sögu var spurt að því hvort ákvarðanir sem varða Ísland yrðu teknar á fundinum og hverjir tækju þær ákvarðanir ef einhverjar væru. Þá var óskað eftir upplýsingum um hverjir sætu fundinn fyrir Íslands hönd.

Í svarinu segir orðrétt:

Ársþing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sækja heilbrigðisráðherra, aðstoðarmaður hans, ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri skrifstofu heilsueflingar og vísinda.

Engar ákvarðanir varðandi Ísland verða teknar á fundinum, enda er WHO ekki slíkur vettvangur, heldur snúast viðfangsefni stofnunarinnar um að veita leiðsögn í heilbrigðismálum á heimsvísu, leiðbeina stjórnvöldum við áætlanagerð, stjórnun og mat á framkvæmd aðgerða í heilbrigðismálum o.fl. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin starfar í nánu samstarfi við aðildarríkin, alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir og samtök, frjáls félagasamtök og sérhæfðar miðstöðvar á ýmsum sviðum heilbrigðismála.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila