Kynningarherferð stjórnvalda um heilbrigðisstefnu lokið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, í samvinnu við forstjóra heilbrigðisstofnana um allt land, hefur að undanförnu fundað um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í öllum sjö heilbrigðisumdæmum landsins.

Áttundi fundurinn um heilbrigðisstefnuna var haldinn í vikunni undir yfirskriftinni Horft til framtíðar en þar var sérstaklega rætt um mönnun og menntun, vísindi og forystu til árangurs.

Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 3. júní síðastliðinn. Heilbrigðisráðherra ákvað að kynna stefnuna í öllum heilbrigðisumdæmum landsins í samvinnu við forstjóra heilbrigðisstofnana í hverju þeirra.

Markmiðið var ekki einungis að kynna inntak stefnunnar, heldur einnig að ræða hvaða breytingar hún er líkleg til að hafa í för með sér og hvaða þýðingu hún hefur, hvort heldur í þéttbýli eða dreifðari byggðum landsins.

Forstjórar heilbrigðisstofnananna fjölluðu um heilbrigðisstefnuna frá sínum  bæjardyrum séð og einnig komu landlæknir og forstjóri Sjúkratrygginga Íslands að fundunum og ræddu um stefnuna út frá sjónarhóli sinna stofnana.

Þessir fundir hafa að mínu mati verið hver öðrum betri og gagnlegri. Þeir hafa verið vel sóttir, umræður hafa verið málefnalegar og ég er fullkomlega sannfærð um sú heilbrigðisstefna sem samþykkt var á Alþingi Íslendinga síðastliðið vor mun reynast okkur góður vegvísir inn í framtíðina“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Fyrsti kynningarfundurinn  var haldinn í heilbrigðisumdæmi Norðurlands á Akureyri 12. júní, næstir voru Vestfirðir með fundi á Ísafirði 18. júní, þá Suðurland með fundi á Selfossi 14. ágúst, Vesturland með fundi á Akranesi 15. ágúst, Suðurnes með fundi í Reykjanesbæ 19. ágúst og Austurlandi með fundi á Egilsstöðum 22. ágúst. Hringnum var lokað með fundi í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins 4. september.

Svandís segir það hafa komið glöggt fram á fundunum út um land að hvert heilbrigðisumdæmi hafi sína sérstöðu því aðstæður séu ólíkar þótt viðfangsefnin séu að mestu þau sömu.

Þá sé heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins um flest ólíkt hinum umdæmunum, enda sé það fjölmennast, þar búi þorri landsmanna á tiltölulega litlu svæði:

Hingað leitar fólk úr öðrum umdæmum eftir ýmiskonar sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og síðast en ekki síst er hér þjóðarsjúkrahúsið okkar, Landspítali sem er þungamiðja heilbrigðisþjónustunnar á landsvísu, um leið og hann er einnig héraðssjúkrahús höfuðborgarbúa.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila