Heimsmálin: Ekkert bendir til þess að Rússar hafi sprengt Nord Stream en sást til ferða sænsks herskips sem slökkti á sendi og herþyrlu Bandaríkjahers skömmu fyrir gaslekann

Í þættinum Heimsmálin í dag ræddi Pétur Gunnlaugsson við fréttaritara Útvarps Sögu í Svíþjóð, Gústaf Skúlason, m.a. um tilgátur og umræður í kjölfar sprengingar Nord Stream gasleiðslunnar frá Rússlandi til Þýskalands. Leki er hættur úr leiðslunum og hefur Umhverfisstofnun Svíþjóðar reiknað út að líklega samsvari lekinn ársframleiðslu Svíþjóðar á gróðurhúsalofttegundum. Gústaf greindi frá því, að sænskur kafari með tengsl innan sjóhersins fullyrti, að Svíþjóð og Danmörk og jafnvel fleiri ríki hefðu sprengt leiðslurnar undir tæknilegri leiðsögn Bandaríkjanna. Segist kafarinn hafa það eftir áreiðanlegum heimildum.

Sænski sjóherinn uppvís með dularfullar skipaferðir á staðnum rétt fyrir gaslekann ekkert hefur sést til ferða Rússa

Sænski sjóherinn hefur viðurkennt að hafa verið á staðnum skömmu áður en leiðslurnar byrjuðu að leka en neitar að gefa upp, hvað skipið var að gera. Það sem kemur sér illa fyrir sænska sjóherinn er, að skipið slökkti á sendi í fyrra skiptið í 22 tíma og í síðara skiptið í 5 tíma, þannig að ekki var hægt að fylgjast með ferðum þess í þann tíma. Í bæði skiptin, þegar sendinum var slegið á aftur var staðsetning skipsins í grennd við þá staði er gasleki kom síðar upp.

Einnig er staðfest, að þyrlur frá bandaríska flughernum voru á sveimi yfir staðnum nokkru fyrir og svo skömmu áður en gaslekinn hófst. Hins vegar hefur ekkert frést eða verið skráð um ferðir rússneskra kafbáta, herskipa, flugvéla eða þyrla á svæðinu og benti Pétur Gunnlaugsson á, að með öllu eftirliti Svía og Dana með umferðinni á Eystrasalti, þá hefði það átt að merkjast ef það hefðu verið Rússar sem sprengdu leiðslurnar eins og sum lönd fullyrða.

Gústaf greindi frá skrifum fyrrverandi ráðgjafa Carters í Hvíta húsinu sem fullyrðir, að Pólland, Bandaríkjamenn, Svíþjóð og Danir hefðu sprengt leiðslurnar. Eftir að lekinn hætti er nú verið að athuga möguleika á að senda kafara niður til að rannsaka rörin.

Mikill uggur um framvindu Úkraínustríðsins eftir að Rússland innlimaði austursvæði í Úkraínu

Eftir að Pútín og Rússlandi innlimuðu svæðin í Austur Úkraínu, sem eru nær fimmtungur lands Úkraínu, í Rússland, þá munu Rússar telja það árás á Rússland ef skotið verður á svæðin í Úkraínu. Tónninn verður sífellt hástemmdari og herskárri með yfirlýsingum þjóðarleiðtoga víða um heim, t.d. hefur utanríkisráðherra Póllands hótað Rússum öllu illu, beiti þeir fjöldadrápstólum eins og kjarnorkuvopnum í Úkraínu. Svipaðar yfirlýsingar koma frá öðrum ráðamönnum í vestri t.d. Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Lítið er talað um frið en megináherslur lagðar á að veita viðkomandi náðarhögg jafnvel þótt það þýddi kjarnorkustríð. Hefur þessi tónn slegið ugg í íbúum álfunnar og ekki síst Rússum en margir karlmenn flýja Rússland til að komast hjá herþjónustu og vera sendir í dauðann í Úkraínu. Heldur þróunin áfram á þessari braut gæti allt farið á versta veg og heimsstyrjöld brotist út.

Evrópusambandið afnemur ritfrelsi og fáir sem engir ræða um það

Þeir Pétur og Gústaf fóru í gegnum ákvörðun Evrópudómstólsins 27. júlí s.l., sem samþykkti tillögu ráðherraráðsins frá því 1. mars 2022 um afnám útsendinga rússneskra ríkisfjölmiðla á ensku til ríkja ESB. Hefur sænski blaðamaðurinn Staffan Dahllöf gert málinu skil og lýsir furðu sinni yfir að jafn róttækar breytingar hafi verið gerðar án nokkurrar umræðu í aðildarríkjunum. Er málfrelsisskerðingin brot á stjórnarskrám flestra ef ekki allra aðildarríkja, þótt utanríkisráðherrar ríkjanna og dómarar hafa samþykkt skerðinguna. Dómstóllinn segist ekki skerða málfrelsið, þar sem stöðvarnar hafi fullt frelsi til að tala, það megi hins vegar ekki dreifa boðskap þeirra sem sé hlutdræg blaðamennska. Það er í sjálfsvald framkvæmdarstjórnarinnar og ráðherraráðsins að skilgreina hvað sé hlutdræg blaðamennska og hvað ekki.

Málfrelsið þýðir að blaðamennska er leyfð hvort svo sem hún er hlutdræg eða ekki en vegna yfirstjórnar ESB á aðildarríkjunum er sú regla því brotin. Meira má lesa um málið hér og þar má finna öll nauðsynleg gögn málsins á bæði ensku og frönsku.

Smelltu á hljóðbútinn hér að neðan til að hlusta á þáttinn.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila