Heimsmálin – Mjög harðar aðgerðir í Sidney vegna Covid – Verðir við verslanir varna fólki inngöngu ef það auðkennir sig ekki

Gripið hefur verið til afar harðra aðgerða í Sidney í Ástralíu sem miða að því að lágmarka útbreiðslu Covid smita eins og mögulegt er en mörgum finnst aðgerðirnar full harðar miðað við tilefnið. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Konráðs Pálmasonar sem býr í Ástralíu í þættinum Heimsmálin en í þættinum var spilað viðtal sem Gústaf Skúlason fréttamaður í Stokkhólmi tók við Konráð í gær, en Konráð hefur kynnt sér vel sóttvarnaaðgerðir yfirvalda þar ytra.

Gústaf Skúlason sem var viðmælandi Péturs í þættinum greindi frá því að Konráð hafi sagt sér frá því í hverju hinar hörðu aðgerðir felist og hvaða áhrif þær hafa á daglegt líf fólks á Sidney svæðinu.

Meðal þess sem Konráð greindi frá er að ekki megi nema einn frá hverju heimili fara í matvöruverslanir hverju sinni til þess að kaupa nausynjar, að uppfylltum talsvert ströngum skilyrðum. Sem dæmi verður viðkomandi að hafa sérstakt app í símtæki sínu við hendina og stimpla sig þar inn áður en farið er inn í viðkomandi verslun, geri viðkomandi það ekki er honum meinuð innganga inn í verslunina af vörðum sem gæta þess að reglum sé fylgt. Hafi verslanir ekki þennan útbúnað fá þær einfaldlega ekki að vera opnar.

Konráð segir að appið sé til þess gert að kortleggja ferðir fólks, ekki ósvipað hinu íslenska rakningaappi, nema að í þessu appi slærðu inn klukkan hvað þú ferð inn í tiltekna verslun og þar með er viðkomandi búinn að staðfesta hvar hann hafi verið á tilteknum tíma. Upplýaingunum er síðan hlaðið inn í gagnagrunn sem fólk geti síðan leitað í ef smit kemur upp í nærumhverfi þess.

Þá nefnir Konráð að þetta séu þó ekki hörðustu aðgerðirnar. Hann nefnir sem dæmi um harðar aðgerðir á vinnustað konu hans sem starfar sem hjúkrunarfræðingur, þar þurfi hún að notast við tvö öpp sambærilegum því sem notast sé við innkaup til þess að komast inn og út á vinnustað auk þess sem tekin séu fingraför af starfsmönnum.

Hann segir talsverða andstöðu vera gagnvart þessum hörðu aðgerðum og meðal annars hafi verið efnt til mótmæla um síðustu helgi. Mótmælin hafi byrjað sem róleg 3400 manna ganga í úthverfi Sidney en þegar var komið niður í miðbæ var hópurinn orðinn um 10.000 – 15.000 manns og mikill hiti í fólki.

Lögregla hafi gripið til þeirra aðgerða að safna saman myndefni frá fólki til þess að bera kennsl á mótmælendur og hafa nú sektað um 2000 manns vegna þeirra.

Hlusta má hér fyrir neðan á viðtalið við Konráð Pálmason

Hér að neðan má heyra þáttinn í heild.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila