Ísland gagnrýnir aðgerðir Tyrklandshers í Sýrlandi

Íslensk stjórnvöld gagnrýna harðlega hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi og hafa komið þeirri afstöðu sinni á framfæri við tyrknesk yfirvöld með formlegum hætti. Þetta kemur í fram í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu í dag. Í tilkynningunni segir að hernaðaraðgerðirnar samræmist ekki alþjóðalögum og þess sé krafist að Tyrkir hætti aðgerðunum þegar í stað og fylgi alþjóðalögum í hvívetna. Hernaður sem beinist að almennum borgurum og veldur manntjóni, eins og fregnir herma, er fordæmdur.

Íslensk stjórnvöld hafa þungar áhyggjur af því að yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrkja magni enn frekar ófriðarbálið á svæðinu og geri að engu þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hann lýsti miklum áhyggjum af hernaðaraðgerðum Tyrklandsstjórnar gegn Kúrdum á sýrlensku yfirráðasvæði og kallaði eftir vopnahléi á svæðinu. Þá hefur afstaða ríkisstjórnarinnar til aðgerðanna komið fram á Alþingi og í fjölmiðlum undanfarna daga.

Fram kemur að íslensk stjórnvöld muni fylgjast náið með framvindu málsins næstu daga og leggja áherslu á það ásamt öðrum ríkjum að hernaðaraðgerðum verði hætt.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila