Hjörleifur segir meintan brottrekstur úr Flokki fólksins vera bull – Er ekki í flokknum og hafði aldrei verið

Hjörleifur Hallgríms Herbertsson sem skipaði heiðurssæti lista Flokks fólksins fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar segir meintan brottrekstur hans úr flokknum vera bull því hann sé ekki í flokknum, hafi aldrei verið og hafi ekki hugsað sér að ganga í hann. Hjörleifur íhugar nú lagalega stöðu sína gagnvart Ingu Sæland og Guðmundi Inga Kristinssyni sem sitja í stjórn Flokks fólksins og þremur konum í nokkrum af efstu sætum á lista flokksins á Akureyri sem sökuðu Hjörleif meðal annars um áreiti.

Ekki hægt að reka mann úr flokknum sem er ekki í honum

Í morgun bárust fregnir að því að Flokkur fólksins hafi rekið Hjörleif úr flokknum en hann segir það af og frá.

„það er ekkert hægt og þetta er tómt bull eins og allt annað sem sagt er um mig, ég er ekkert í Flokki fólksins og hef ekkert hugsað mér að ganga í hann, ég get ekki hugsað mér að vera undir handleiðslu óábyrgs fólks eins og Ingu Sæland og Guðmundar Inga, það er útilokað að vera í slagtogi með þeim“segir Hjörleifur.

Segir Ingu Sæland ausa peningum í menn sem geri illt verra

Hann segist eingöngu hafa tekið að sér kosningastjórn fyrir framboðið í verktöku fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og hafi ekki fengið krónu greidda fyrir það.

„á meðan Inga Sæland veit ég að jós peningum út í bláinn og ekki neitt, til manna sem gerðu bara illt verra og ég get sagt það að þá á ég hér við auglýsingamálin sem voru hirt af mér og ég ætlaði að sjá um án þess að taka fyrir það“

Hann segir að málið sé í hans huga mjög alvarlegt.

„þetta er svo alvarlegt mál allt saman að frá því ég fékk tölvupóstinn í gær þá hef ég verið með það alvarlega í huga að leita mér álit lögfræðings um að stefna þessum svikakvendum sem ég kalla því þær eru ekkert annað og ég tek þau orð ekkert til baka og því ábyrgðarlausa fólki Ingu Sæland og Guðmundi Inga sem ausa yfir mig blásaklausan manninn skítkasti, lygum og óþverra svo ekki sé meira sagt og það er einfaldlega ekki hægt að líða það“segir Hjörleifur.

Hann segist hafa lagt mikið af mörkum til Flokksins meðal annars með því að setja saman listann og talað persónulega við alla þá sem á listanum sátu fyrir kosningarnar.

„ég talaði við allt það góða fólk nema þessar þrjár kvensur þarna sem ég jú talaði rendar við líka en tek þær ekki með í reikninginn því þær eiga það ekki skilið“

Segist eiga listann

Hjörleifur segir að hann eigi í raun þann lista sem flokkurinn tefldi fram enda hefði hann unnið hörðum höndum að því að koma honum saman.

„ég á þennan lista alveg skuldlaust en hann var bara eyðilagður fyrir mér, ég gerði góða hluti og það fara bara ekkert allir í fötin mín þar. Í 65 ár er ég búinn að standa í því að koma nálægt kosningabaráttum og ég hef líklega staðið að einum 16 eða 17 bæjarstjórna og Alþingiskosningum og lent þar með mörgu ágætu fólki en ég verð að segja að þarna hef ég aldrei lent í öðru eins ég segi bara óþverrafólki því það lýgur og er með óþverra gagnvart blásaklausum manninum og ég endurtek það“segir Hjörleifur.

Hlusta má á frásögn Hjörleifs hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila