Fitch Ratings staðfestir óbreytta A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með stöðugum horfum

Fitch Ratings birti í gær mat á lánshæfi ríkissjóðs. Lánshæfiseinkunnir eru óbreyttar langtímaeinkunnir í innlendri og erlendri mynt standa í A og skammtímaeinkunnir eru óbreyttar í F1+. Horfur eru stöðugar.

Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli m.a. háa landsframleiðslu á mann og góða stöðu ríkisfjármála. Stærð hagkerfisins og takmarkaður fjölbreytileiki útflutnings draga einkunnina hins vegar niður.

Þá segir í tilkynningunni að verulegur bati á efnahagsreikningi hins opinbera, studdum varfærinni stefnu í opinberum fjármálum, ásamt frekari bata í ytri stöðu og viðnámsþrótti hagkerfisins til að bregðast við ytri áföllum, gæti síðar leitt til hærri lánshæfiseinkunnar.

Viðvarandi og skarpari niðursveifla en gert er ráð fyrir með tilheyrandi áhrifum á bankakerfið, ásamt verulegu fjármagnsútflæði sem ógnað gæti fjármálastöðugleika, gæti leitt til lægri lánshæfiseinkunnar. Smelltu hér til þess að sjá nánar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila