Frumvarp um breytingar á almenna íbúðakerfinu lagt fram

Ásmundur Einar Daðason félags og barnamálaráðherra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um almennar íbúðir. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra frá gildistöku 15. júní 2016 til að þau nái enn betur markmiði sínu um að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignalágra leigjenda.

Í frumvarpinu er meðal annars lögð til hækkun á tekju- og eignamörkum leigjenda almennra íbúða þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum. Þá er lagt til að unnt verði að veita sérstakt byggðaframlag til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum á svæðum þar sem verulegur skortur er á leiguhúsnæði og misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis.

Lagt er til grundvallar að sérstakt byggðaframlag standi einungis til boða sveitarfélögum, félögum, þar með talið húsnæðissjálfseignarstofnunum, og félagasamtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að eiga og hafa umsjón með rekstri leiguíbúða.

Húsnæðismál eru velferðarmál og almenna íbúðakerfið hefur þegar sannað mikilvægi sitt hvað það snertir. Við ætlum á næstu árum að tryggja fjármagn til að byggja 600 nýjar íbúðir árlega innan almenna íbúðakerfisins. Samhliða því erum við hér að gera ýmsar breytingar til að almenna íbúðakerfið verði skilvirkara og nái til fleira fólks bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni,“ segir Ásmundur Einar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila