Húsnæðisuppbygging í Mosfellsbæ föst í Borgarlínufjötrum

Húsnæðisuppbygging í landi Blikastaða einu helsta byggingarlandi í Mosfellsbæ er skilyrt við Borgarlínuna því samkvæmt áætlun verður ekki byggt í landi Blikastaða nema Borgarlínan verði að veruleika. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sveins Óskars Sigurðssonar oddvita Miðflokksins í Mosfellsbæ sem jafnframt á sæti í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Langt í Borgarlínuna

Sveinn bendir á að það geti verið talsvert langt í að Borgarlínan verði tilbúin og á meðan sé umferðin á degi hverjum að aukast og þyngjast með tilheyrandi umferðarhnútum og miklum töfum og hefur áhrif á önnur bæjarfélög eins og Mosfellsbæ. Hluti af því sem hann telur geta leyst umferðarvandann sé að fleyta umferðinni á beinum leiðum yfir borgina og út á Sundabraut sem hann vonar að ferði að veruleika von bráðar og aðrar leiðir. Ekki þurfi þá að vera ljós á þessum leiðum og þar með fækkar það ökutækjum í venjubundinni umferð.

Hann segir Mosfellinga vilja fá Sundabraut sem fyrst því þá hætta meðal annars þungaflutningar að fara í gegnum bæinn, það sé í raun afar óeðlilegt að þungaflutningar fari í gegnum heilt bæjarfélag. Þá bendir hann á að með því að tefja Sundabrautina sé verið meðal annars að auka á mengun, enda menga bifreiðar sem eru fastar í umferðarhnút afar mikið, auk þess sem það sé kostnaðarsamt að hafa slíka umferðarhnúta og þjóðhagslega óhagkvæmt.

Stólalyfta fyrir fatlaða hefur verið biluð í tvö kjörtímabil

Sveinn vill að hugað sé einnig vel að málum fatlaðra í bænum og bendir á að þar sé margt í miklum ólestri, til að mynda sé hjólastólalyfta í Varmárskóla sem hafi verið biluð í heil tvö kjörtímabil og enn sé ekkert sem bendi til þess að hún verði löguð í bráð.

Þá bendir Sveinn á að matarsendingar til eldri borgara eigi það til að bregðast og jafnvel ekki berast þeim sem bíða eftir sendingunum. Hann bendir á að það væri illt í efni ef þekkt vörumerki eins og Dominos létu slíkt spyrjast um sig.

„við erum hins vegar vörumerkið Mosfellsbær og eigum að kappkosta að hafa þessa hluti í lagi“ segir Sveinn.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila