Inga Sæland leggur fram frumvarp um bann við blóðmerarhaldi

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Inga Sæland formaður Flokks fólksins hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um bann við svokölluðu blóðmerarhaldi, en blóðmerarhald hefur verið afar umdeilt hér á landi.

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að í lögum um velferð dýra sé kveðið á um að ekki megi misbjóða dýrum á nokkurn hátt og því skjóti það skökku við að tekið sér um 14% heildar blóðmagns úr blóðmerum í viku hverri á tveggja mánaða tímabili í senn.

Tilgangur blóðsöfnunar úr merum er sá að nota hormón sem myndast í fylfullum hryssum til þess að framleiða frjósemislyf fyrir búfénað en folöldum blóðmera er jafnan slátrað um leið og þær hafa kastað.

Í greinargerðinni segir meðal annars

Ekki var fjallað sérstaklega um þessa starfsemi í frumvarpi um velferð dýra og ekki er fjallað um hana sérstaklega í reglugerð um velferð hrossa eða í reglugerð um velferð dýra sem eru notuð í vísindaskyni. Ekki er í þessum reglugerðum fjallað um hversu langt megi ganga við reglulega blóðtöku úr fylfullum merum í því skyni að framleiða PSMG umfram almenn ákvæði þeirra“

Jafnframt segir:

Það er því ekkert í lögum eða reglugerðum sem kveður á um hve mikið af blóði megi taka úr fylfullum merum hverju sinni, né hve oft, né hvaða aðbúnaður þurfi að vera til staðar. Þetta er með öllu ótækt í ljósi þess hve umfangsmikil þessi starfsemi er hér á landi.
 Þá eru dæmi um að merar drepist við blóðtöku. Ekki eru til opinberar tölur yfir það en yfirdýralæknir sagði í viðtali árið 1998 að um 1–2 merar hefðu drepist á sumri. Mögulega hafa fleiri merar drepist af afleiðingum blóðtöku, en þegar merar drepast í stóðum eftir blóðtöku er erfitt að ganga úr skugga um hvort það megi rekja til blóðtökunnar eða annarra þátta. Þótt merar drepist ekki við blóðtöku getur iðnaðurinn haft slæm áhrif á líf og líðan þeirra.

Bent er á í greinargerðinni að samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við blóðmerarhald á þremur bæjum á landinu en ekki er tekið fram hvaða athugasemdir voru gerðar og að hverju þær snerust.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila