Innblástur nýrrar kirkju í Grímsey sóttur til náttúru eyjarinnar

Hér má sjá teikningu af kirkjunni sem gert er ráð fyrir að rísa muni í Grímsey

Íbúar Grímseyjar sem þykja afar samheldinn og samtaka hópur hafa þegar komið af stað áætlun byggingar nýrrar kirkju í stað Miðgarðakirkju, þeirrar sem brann þann 21.september síðastliðið haust. Á sóknarnefndar- og íbúafundi í Grímsey á dögunum kynnti Hjörleifur Stefánsson arkitekt frumdrög að nýrri kirkju þar sem gert er ráð fyrir að efniviður og altari verði sótt í náttúru eyjarinnar.

Það sem einkenndi Miðgarðakirkju var forkirkjan og turninn með toppmynduðu þaki en efri hluti hans var undir þrengra formi og umhverfis stallinn sem myndaðist á skilunum var handrið af renndum pílárum og á hornstoðunum fjórum voru litlir málmkrossar. Nýja kirkjan sem kynnt var á fundinum er með svipuðum turni.

Á íbúafundinum var auk þess kynnt hugmynd um að gera veggklæðningar nýrrar kirkju úr lerki/rekavið eins og var í gömlu kirkjunni. Einnig var lagt til að gera gólf kirkjunnar úr stuðlabergsflísum, að þakið verði lagt þakskífum úr stuðlabergssneiðum og altarið hannað úr bergstuðlum, þannig leitast við að tengja húsið náttúru eyjarinnar og sögu. Neðan við Miðgarða og víðar á vesturströnd eyjarinnar eru fallegir stuðlabergsklettar og þar má sjá lárétta stuðlastalla, sem minna helst á „kirkjugólfið“ við Kirkjubæjarklaustur.

Við hönnun byggingarinnar þarf að horfa til byggingarreglugerðar og því þarf að bæta við rými til að uppfylla þær kröfur m.a. varðandi tækjabúnað, ræstiklefa, snyrtingar, aðgengi fatlaðra o.fl. Einnig er horft til þess að hægt verði að nýta nýja kirkju sem best m.a. með tilliti til annarra athafna en helgihalds.

Á fundinum var einróma samþykkt að halda áfram með verkefnið, fullvinna teikningarnar og gera kostnaðaráætlun.

Söfnun fyrir nýrri kirkju stendur yfir og þeim sem vilja leggja henni lið er bent á reikning Miðgarðakirkju, 565-04-250731, kt. 4602692539.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila