Ísland í 4.sæti meðal Evrópuþjóða í stafrænni þjónustu

Ísland er í fjórða sæti í árlegri könnun meðal Evrópuríkja á stafrænni, opinberri þjónustu (eGovernment Benchmark) og hækkar um þrjú sæti milli ára.

Í efstu þremur sætunum eru Malta, Eistland og Lúxemborg, en næst á eftir Íslandi koma Holland, Finnland og Danmörk. Könnunin er ítarleg og byggist m.a. á upplifun notenda, en Evrópusambandið hefur sett það markmið að bæta notendaupplifun og stafræna þjónustu.

Í niðurstöðum könnunarinnar er Ísland nefnt sem leiðandi þjóð þegar kemur að rafrænni auðkenningu. Ísland er enn fremur í fyrsta sæti í notkun rafrænna skilríkja en í upphafi þessa árs voru 96% landsmanna 18 ára og eldri með rafræn skilríki. Þá er nú hægt að nýta stafrænar umsóknir eða stafræn samskipti í um 80% tilvika þegar sækja þarf opinbera þjónustu, en þar er Ísland sömuleiðis leiðandi meðal Evrópuþjóða.

Ísland er í 11. sæti þegar kemur að stafrænni þjónustu á netinu en 91 prósent opinberrar þjónustu er þegar hægt að leysa á netinu. Þá er Ísland í áttunda sæti þegar kemur að snjallsímavænni þjónustu með 98 prósentustig og fær Ísland.is appið sérstaka umfjöllun í skýrslunni.

Niðurstaðan sýnir að Ísland er vel yfir meðaltalinu í þremur af fjórum flokkum könnunarinnar, en unnið er markvisst að því að styrkja stöðu Íslands enn frekar næstu árin.

Bjarni Benediktsson efnahagsráðherra segir niðustöðurnar vera mikla viðurkenningu

„„Það er alltaf ánægjulegt þegar við setjum okkur háleit markmið og náum þeim. Þessi niðurstaða er mikil viðurkenning fyrir öfluga vinnu síðustu missera, en við ætlum okkur auðvitað að gera enn betur á komandi árum.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila