Íslendingar sterkir á Veronicas Cup bogfimimótinu

Ísland átti góða daga á Veronicas Cup bogfimimótinu sem fram fór á dögunum í Slóveníu. Alls 53 þjóðir og 242 keppendur tóku þátt, en mótið fór fram dagana 5-8 maí síðast liðinn. 7 konur og 2 karlar frá Íslandi voru skráðir til keppni á mótinu og sýndu vægast sagt frábæra frammistöðu, og voru Íslendingar þriðja sterkasta þjóðin á mótinu

Slóvensku liðin komu mikið á óvart á mótinu en þau unnu öll gull verðlaun í liðakeppni (fullorðinna) á mótinu, nema í trissuboga kvenna liðakeppni þar sem Ísland vann. Þetta er í fyrsta sinn sem Slóvenía nær þetta miklum árangri á þessu heimslistamóti sem haldið hefur verið árlega í þeirra heimalandi síðasta áratug.

Um langt skeið vegna Kórónuveirufaraldurs hefur ekki verið mögulegt fyrir BFSÍ að senda full skipuð lið á erlenda viðburði og því féll staða Íslands á heimslistum töluvert á þeim tíma. En staða Íslands batnaði töluvert í liðakeppni og blandaðri liðakeppni (1kk+1kvk) eftir mótið:

  • Trissubogi kvenna lið 39 sæti á heimslista og 13 sæti á Evrópulista
  • Sveigbogi kvenna lið 51 sæti á heimslista og 25 sæti á Evrópulista
  • Trissubogi blanda lið 56 sæti á heimslista og 25 sæti á Evrópulista.
  • Sveigbogi blandað lið 67 sæti á heimslista og 31 sæti á Evrópulista.

Miklar breytingar voru í stöðu á heimslista einstaklinga, sérstaklega í trissuboga kvenna þar sem Anna María Alfreðsdóttir (19 ára) hoppaði upp um næstum 150 sæti á heimslistanum eftir mótið í 113 sæti. En Anna sýndi lang sterkustu frammistöðu Íslensku keppendanna á mótinu með nýju Íslandsmeti fullorðinna og U21, og vann brons úrslitaleikinn af miklu öryggi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslenskur keppandi vinnur til verðlauna í opnum flokki (fullorðinna) á heimslistamóti.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila