Íslensk stjórnvöld samþykkja að taka á móti sýrlenskum barnafjölskyldum frá Lesbos – Viljum bregðast við ákallinu

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að Ísland taki á móti flóttafólki frá Lesbos á Grikklandi, með áherslu á sýrlenskar fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Fjölskyldurnar bjuggu áður í flóttamannabúðunum Moria sem eyðilögðust í eldsvoða fyrr í mánuðinum.

Fram kemur í tikkynningu að flóttafólkið frá Lesbos, sem verður allt að 15 manns, muni þannig bætast í hóp þeirra 85 sem ríkisstjórnin hyggst taka á móti á þessu ári og er það langfjölmennasta móttaka flóttafólks á einu ári hingað til lands.

Flóttamannanefnd mun annast undirbúning á móttöku fjölskyldnanna og verður móttaka þeirra unnin í samvinnu við Evrópusambandið og grísk stjórnvöld. Evrópusambandið hafði áður sent frá sér ákall um nauðsyn á flutningi barna og barnafjölskyldna vegna bruna Moria flóttamannabúðanna. Þá mun Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vera íslenskum stjórnvöldum innan handar varðandi það hvernig best verður staðið að því að koma fjölskyldunum til landsins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að hér á landi hafi skapast dýrmæt þekking þegar kemur að móttöku sýrlenskra fjölskyldna

Við viljum bregðast við ákalli því sem borist hefur um að taka á móti fólki á flótta frá Lesbos. Hér á landi hefur skapast umfangsmikil og dýrmæt þekking þegar kemur að móttöku sýrlenskra fjölskyldna og sú reynsla okkar kemur að góðum notum. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka á móti fleira flóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem lýst hefur ánægju með móttöku flóttafólks hér á landi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila