Jimmie Åkesson krefst jafnréttisstöðu í hugsanlegri ríkisstjórn með Móderötum í Svíþjóð

Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, segir flokkinn sækjast eftir ríkisstjórnarsamstarfi á jafnréttisgrundvelli. Flokkurinn mælist stöðugt sem einn af þremur stóru stjórnmálaflokkunum í Svíþjóð og lendir stundum í efsta sæti sem sá stærsti í skoðanakönnunum. (Sksk Facebook).

Svíþjóðardemókratar vinna ötullega að því að verða þáttakendur í næstu ríkisstjórn í Svíþjóð haldi stuðningur kjósenda við þá áfram í sama eða jafnvel auknum mæli. Skoðanakannanir sýna öðru hvoru, að Svíþjóðardemókratar séu orðnir stærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar eða sá næst stærsti og hjá sumum þriðji stærsti flokkurinn. En hvað sem öllum könnunum líður, þá eru Svíþjóðardemókratar orðnir þýðingarmikill hluti stjórnmálalífsins í Svíþjóð og flokksforinginn Jimmie Åkesson segir í viðtali við Dagens Nyheter: „Við munum verða í ríkisstjórnarsamstarfi á jafnréttisgrundvelli og hafa áhrif til samræmis við stærð flokksins.“

Leiðtogi Svíþjóðardemókrata sér mikla möguleika að koma stefnu flokksins í framkvæmd eftir þingkosningarnar næsta haust í Svíþjóð. Markmiðið er að komast í ríkisstjórn en stjórnmálalegt innihald er afgerandi. Jimmie Åkesson sér ekkert gildi í sjálfu sér að vera með eða hleypa fram ríkisstjórn ef það hefur ekki afgerandi áhrif á framkvæmd stefnunnar:

„Við stöndum í stjórnmálabaráttunni til að ná áhrifum og bæta samfélagið. Það verður best gert sem hluti ríkisstjórnar eða að leiða ríkisstjórnina. Við göngum til kosninganna á þeim grundvelli.“

„Áhrif í hlutfalli við stærð flokksins“

Ulf Kristersson formaður Móderata hefur áður sagt, að hann vilji ekki fá Svíþjóðardemókrata inn í ríkisstjórn en það þýðir ekki að það geti ekki gerst. Jimmie segir „Hann vill það ekki en ég vil það.“ Jimmie segir að hægt ætti að vera að semja um málið.

Stærð Svíþjóðardemókrata er um 20% þessa stundina. Það verður því erfitt ef ekki ómögulegt fyrir Móderatana að stjórna landinu án stuðnings Svíþjóðardemókrata. Jimmie segir stuðning þýða eftirgjöf Móderata, því að Svíþjóðardemókratar vilja „starfa á jafnréttisgrundvelli í ríkisstjórnarsamstarfi“ og hann krefst áhrifa til samræmis við hlutfall kjósenda, sem kjósa flokkinn.

Leiðtogi Svíþjóðardemókrata vill sjá nákvæma áætlun fyrir þeirri stefnu, sem Ulf Kristersson boðar í ríkisstjórn undir forystu Móderata. Verði Svíþjóðardemókratar ekki hluti ríkisstjórnarinnar mun Åkesson í staðinn gera kröfur um nákvæma útfærslu á þeim málum, sem Móderatar sækjast eftir stuðningi Svíþjóðardemókrata. Hann er bjartsýnn varðandi samastarfið og segir samstarfsferlið þegar í gangi.

Fjarlægir myndina af einangruðum flokki

Åkesson segir samstarf við aðra flokka verða stöðugt mikilvægara fyrir Svíþjóðardemókrata. Hann segir að víst geti Svíþjóðardemókratar skorið sig út frá öðrum enn frekar en telur að mikilvægara sé að skapa reynslu í samningaviðræðum stjórnmálanna en að starfa sem einn einangraður flokkur. Markmiðið er að nálgast aðra flokka til að geta skapað traustan valkost nýrrar ríkisstjórnar. Þess vegna leggja Svíþjóðardemókratar áherslu á að auka traustið á hæfni flokksins t.d. í efnahagsmálum og velferðarmálum.

Aðrir flokkar hafa þokast í þá átt að byrja að þora að tala um þau vandamál sem Svíþjóðardemókratar hafa lengi rætt um og Jimmie finnst það jákvætt. Mikið af þjóðfélagsumræðunni fjallar um kjarnaspurningar Svíþjóðardemókrata og því verður mikið að gera framundan:

„Ég held að kjósendurnir sjái okkur sem trygginguna í þessum málum. Það eru Svíþjóðardemókratar, sem hafa neytt aðra flokka til að breyta sér og við erum tryggingin fyrir því, að það gangi ekki aftur til baka. Á meðan við stækkum og kjósendur annarra flokka koma til okkar, þá munu flokkarnir vera tilneyddir að vera í þeirri stöðu, sem þeir eru í dag. Kjósendur skilja þessa tengingu.“

Á erfitt með að taka Miðflokkinn og Sósíaldemókrata alvarlega

Bæði Miðflokkurinn og Sósíaldemókratar hafa útmálað Svíþjóðardemókrata sem „ógn við hið frjálslynda lýðræði.“ Åkesson segist varla geta tekið það alvarlega, það sé fremur tákn um örvæntingu þessarra flokka:

„Frjálshyggjan og sósíalisminn líta á þjóðina sem stærsta ógn gegn þeim útópísku samfélögum, sem þeir eru að reyna að mynda. En tryggingin fyrir lýðræðinu finnst aðeins hjá sjálfri þjóðinni. Þjóðríkið er sjálfur grundvöllurinn fyrir því að hægt var að koma á lýðræði í Svíþjóð og í okkar heimshluta. Lýðræðið krefst samstöðu og félagsauðs, sem er til staðar í þjóðríkjum með grundvallarleg, sameiginleg auðkenni. Þetta vilja vinstri frjálshyggjumenn eða nýfrjálshyggjumennirnir í Miðflokknum eyðileggja. Við ógnum þeirra samfélagsgerð en við ógnum ekki lýðræðinu.“

Í næstu viku hefjast ferðalög Jimmie Åkesson í Svíþjóð, þar sem hann mun hitta fólk og hlýða á frásagnir um ástandið í landinu. Verður hann aðgengilegur fyrir kjósendur og vonast eftir opnum umræðum:

„Það er með lýðræðislegu grundvallarstarfi, fjarri sölum valdsins, sem við fáum hugmyndir um hversdagsvanda almennings. Opnar umræður milli fólks er stærsti byggingarsteinninn í virku lýðræði“ segir flokksformaður Svíþjóðardemókrata í tilkynningu flokksins um ferðirnar framundan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila