Josh Hawley greiðir atkvæði gegn aðild Svíþjóðar og Finnlands að NATO

Öldungadeildarþingmaðurinn Josh Hawley, repúblikani, tilkynnti á mánudag að hann myndi greiða atkvæði gegn aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO og sagði, að Bandaríkin yrðu að einbeita hernaðaraðgerðum sínum að Kína – ekki Evrópu og Rússlandi (mynd © skrifstofa öldungadeildarþingmannsins).

Kína – stærsti óvinur Bandaríkjanna

Hawley skrifaði í National Interest: „Finnland og Svíþjóð vilja ganga í Atlantshafsbandalagið til að koma í veg fyrir frekari árásir Rússa í Evrópu. Það er alveg skiljanlegt miðað við staðsetningu þeirra og öryggisþarfir.“

Fyrr á þessu ári tilkynntu þjóðhöfðingjar beggja Norðurlandanna að þeir hygðust ganga í hernaðarbandalagið. Og í síðasta mánuði tilkynnti Tyrkland, að tryggingar hefðu fengist frá Svíþjóð og Finnlandi svo Tyrkland gæti mælt með inngöngu landanna.

Hawley skrifar:

„Stærsti erlendi andstæðingur Bandaríkjanna vofir ekki yfir Evrópu. Hann vofir yfir Asíu. Ég er að sjálfsögðu að tala um Alþýðulýðveldið Kína. Og þegar kemur að kínverskri heimsvaldastefnu, þá ætti bandaríska þjóðin að vita sannleikann: Bandaríkin eru ekki tilbúin að standa gegn henni. Að víkka út öryggisskuldbindingar Bandaríkjanna í Evrópu núna myndi aðeins gera þetta vandamál verra – og veikja öryggi Bandaríkjanna.“

Nokkur aðildarríki NATO, þar á meðal Bandaríkin, eiga enn eftir að greiða atkvæði til að staðfesta aðild ríkjanna tveggja að NATO. Chuck Schumer, leiðtogi meirihluta öldungadeildarinnar, demókrati, sagðist vilja að öldungadeildarþingmenn greiddu atkvæði um málið áður en þingmenn fara í frí 8. ágúst.

Ekki hægt að berjast samtímis við Rússland og Kína

Fjöldi repúblikana hefur opinberlega stutt aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO. Í maí var Hawley meðal 11 öldungadeildarþingmanna repúblikanaflokksins, sem greiddi atkvæði gegn 40 milljarða dollara hjálparpakka til Úkraínu en pakkinn var samþykktur af þinginu.

Í álitsgrein sinni sagði Josh Hawley, sem er repúblikani frá Missouri, að Bandaríkin hefðu ekki getu til að takast samtímis á við Rússland og Kína.

„Eins og varnarmálastefna Bandaríkjanna ár 2018 og ár 2022 ber með sér, þá geta Bandaríkin ekki sigrað Kína og Rússland í tveimur stórstyrjöldum á sama tíma. Og við erum ekki þar, sem við þurfum að vera í Asíu. Í ljósi þessa sterka raunveruleika, þá verðum við að velja. Við verðum að gera minna í Evrópu (og annars staðar) til að forgangsraða Kína og Asíu.“

Hawley endurtók yfirlýsingar Donald Trump, fyrrverandi forseta, fyrir mörgum árum og sagði, að sum NATO-ríkin ættu að axla meiri ábyrgð til varnar álfunni með því að veita herjum sínum meira fjármagn og treysta ekki á Bandaríkin.

Í síðustu viku samþykkti fulltrúadeildin ályktun, sem staðfestir inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO en Rússar eru því andvígir. Í lok júní sendu rússneskir embættismenn frá sér nýja viðvörun til Norðurlandaþjóðanna um „alvarlegar hernaðarafleiðingar“ ef löndin yrðu meðlimir NATO.

Deila