Julian Assange á yfir höfði sér 175 ára fangelsisdóm fyrir hernaðarnjósnir og tölvuafbrot – 80 þúsund mótmæla skriflega

John Shipton faðir Julian Assange fyrir framan skilti með mynd af syni sínum. Á skiltinu stendur „Ekki framselja Assange – Blaðamennska er ekki glæpur.”

Réttarhöld voru tekin upp á ný í máli stofnanda Wikileaks, Julian Assange í vikunni í London en þau hafa legið niðri í sex mánuði vegna kórónufaraldursins. Daglegir fundir og mótmælastöður eru fyrir utan dómstólinn Old Bailey og m.a. hefur faðir Assange, John Shipton haldið þar ræður og rætt við fjölmiðlafólk.

Í viðtali við lögfræðing Assange, Jennifer Robinsson, hér að neðan kemur fram að yfir 80 þúsund manns hafa skrifað undir mótmæli samtakanna „Fréttamenn án landamæra” til bresku ríkisstjórnarinnar um að láta Assange lausan. Telja samtökin réttarhöldin vera pólítísk og málfrelsinu hótað verði Assange framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann á yfir höfði sér 175 ára dóm fyrir hernaðarnjósnir og tölvuafbrot. Munu samtökin senda Boris Johnson forsætisráðherra Breta mótmælalistann eftir misheppnaða tilraun til afhendingar á Downingsstræti 10.

Jennifer Robinsson llögfræðingur Wikileaks og verjandi Assange

Jennifer Robinsson hefur starfað með Wikileaks og sem verjandi Assange allt frá 2010. Hún segir ákærur Bandaríkjamanna á hendur Assange fyrir njósnir og tölvuárásir vera pólitískar og ekki byggðar á staðreyndum. Assange var í stöðu útgefandans með birtingu gagna sem m.a. sýndu bandaríska hermenn skjóta úr herþyrlu á 12 manns og drepa þ.á.m. tvo fréttaritara Reuters. Á myndböndum má einnig sjá viðtöl við Kristinn Hrafnsson talsmann Wikileaks á Íslandi.

Vanessa Barasiter dómari dómstólsins hótaði að reka Assange burtu úr dómssal og halda réttarhöldunum áfram án Assange eftir að hann greip fram í fyrir vitni og sagði vitnisburð þess vera dellu. Á heimasíðu Amnesty International segir „Refsing útgefandans. Þú þarft ekki að vera sérfræðingur í framsalslögum til að skilja að ákærurnar gegn Assange eru reistar á stjórnmálalegum grundvelli. Að birta upplýsingar eru hornsteinn fjölmiðlafrelsis og réttur almennings til að fá aðgang að upplýsingum. Slíkt ber að verja í stað refsingar.”

Hver er Julian Assange?

Julian Assange fæddist árið 1971 í Townsville, Queensland í Ástralíu og á unglingsárum hans komu hæfileikar hans á sviði tölvutækni fljótt í ljós. Hann fór fljótlega að nýta tölvuþekkingu sína til upplýsingaöflunar en hann var þekktur undir dulnefninu Mendax í innstu kimum internetsins. Virkni tölvukerfa og öryggisvarnir þeirra hafa átt hug hans allan en á yngri árum lét hann reyna á þekkingu sína til þess að brjótast inn í flókin kerfi ýmissa stofnana og fyrirtækja en hafði það alltaf fyrir reglu að eyðileggja aldrei þau kerfi sem hann náði að komast inn í, sú regla hans hefur haldist síðan.

Árið 2006 stofnaði Julian uppljóstrunarvefinn Wikileaks í þeim tilgangi að afhjúpa spillingu og veita uppljóstrurum vettvang til þess að koma upplýsingum á framfæri. Julian hafði þá reglu að þau gögn sem birtust á vefnum kæmu frá öðrum en honum sjálfum og hefur að að sögn aldrei brotist inn í tölvukerfi til þess að ná í gögn í þeim tilgangi að birta á Wikileaks.

Julian var tíður gestur á Íslandi á árunum rétt eftir hrun, en á þeim tíma vann hann ásamt hópi fólks hér á landi að birtingu gagna sem sýndu fram á stríðsglæpi bandarískra hermanna í Afganistan, gagna sem áttu eftir að draga dilk á eftir og Julian var í kjölfarið hundeltur af stjórnvöldum í Bandaríkjunum.

Þá má geta þess að Julian Assange hélt eitt sinn ræðu á útifundi á Austurvelli þar sem hann bar íslendingum kveðjur frá hinum ýmsu löndum en í ræðunni hvatti hann einnig Íslendinga til dáða í tengslum við Icesave málið, en hér að neðan má sjá myndband af ræðu Assange. Myndbandið tók Andres Zoran Ivanovic en eftir Andres liggja tugir myndbanda sem hann gerði í kringum hrunið og geyma mörg hver merkilegar heimildir um mótmælafundina á Austurvelli.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila