Kanslari Austurríkis hættir tafarlaust störfum vegna rannsóknar um fjármálasvindl – Græningjar hótuðu stjórnarslitum

Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, hætti störfum sem kanslari Austurríkis með tilkynningu á laugardagskvöld. Mikið hefur gengið á og stjórnarsamstarfið að springa m.a. vegna rannsóknar yfirvalda á fjármálasvindli en Kurz ásamt 9 flokkssystkinum eru ásökuð um að hafa notað opinbert fé til að múta áhrifavöldum og þekktu fjölmiðlafólki til að tala og skrifa vel um sig og flokkinn. (Sksk TV)

Sebastian Kurz kanslari Austurríkis hefur legið undir ásökunum um fjármálasvindl síðan í maí í ár. Á miðvikudaginn fór lögregla inn á skrifstofur hans og flokksskrifstofu í Wien og á laugardagskvöld sagði Kurz af sér sem kanslari.

Kurz segir í opinberri tilkynningu, að ríkisstjórnin hafi komist í „þrátefli“ við andsstöðuna gegn sér og hann kjósi því að hætta störfum. Hann hefur beðið forseta Austurríkis, Alexander Van der Bellen, að tilnefna nýjan kanslara og leggur til að það verði Alexander Schallenberg utanríkisráðherra.

Schallenberg er 52 ára gamall og þekktur bandamaður Kurz samkvæmt Blomberg. Hann hefur unnið að mestum hluta í utanríkisráðuneyti Austurríkis.

Neitar afbroti

Yfirvöld í Austurríki slógu til á skrifstofu kanslarans og á aðalskrifstofum flokks hans í Wien s.l. miðvikudag. Var það hluti rannsóknar um kanslarann og níu einstaklinga úr innsta hring kanslarans sem grunaðir eru um að hafa tekið opinbert fé á árunum 2016-2018 til að múta áhrifavöldum og framskarandi fjölmiðlafólki til að skrifa og tala fallega um sig og stjórnina.

Kurz neitar sakargiftum og sagði í gær, að ásakanirnar væru falskar. Hann segist hafa tekið ákvörðunina um að hætta embættisstörfum til að komast hjá stjórnarkreppu og viðhalda völdunum hjá Alþýðuflokki Austurríkis. Græni umhverfisflokkurinn hafði hótað með því að slíta stjórnarsamstarfi, nema að Kurz færi frá völdum og leggja átti fram vantrauststillögu gegn honum á þinginu á þriðjudaginn í næstu viku.

Kanslarinn sagði „Ég vil leysa þráteflisstöðuna með því að víkja úr embætti og komast hjá ringulreið og tryggja stöðugleika.“

Kemst hjá atkvæðagreiðslu um vantraust

Foringi Græningja, Werner Kogler, lýsti því yfir „að þetta er rétt skref fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarf“ og hann bætti því við, að hann hefði „mjög skapandi samstarf“ með Schallenberg utanríkisráðherra.

Með því að víkja úr embætti kemst Kurz hjá atkvæðagreiðslu um vantraust í þinginu. Græningjar og þrír stjórnarandstöðuflokkar hófu umræður fyrir helgi um að leggja fram vantraustsyfirlýsingu gegn Kurz á aukafundi þingsins næsta þriðjudag.

Kurz er þegar undir ásökunum og væntanlegri ákæru í öðru máli, vegna hlutdrægni og misnotkunar á stöðu sinni, þegar hann gekkst undir eiðsvarinn vitnisburð fyrir rannsóknarnefnd þingsins í fyrra að sögn Politico.

Sebastian Kurz var kjörinn yngsti kanslari Austurríkis fyrir fjórum árum, þá aðeins 31 árs gamall. Hann segist ætla að halda áfram störfum sem flokksleiðtogi fyrir Alþýðuflokk Austurríkis og heldur sæti sínu í þinginu skv. Reuters. Kurz er þekktur fyrir harða afstöðu gegn íslamavæðingu Evrópu. Hann hefur einnig verið sterk rödd gegn óhóflegri eyðslu og vaxandi útgjöldum ESB.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila