Katrín segir yfirstandandi orkukreppu ekki mega hægja á aðgerðum í loftslagsmálum – Eigum að hraða grænum umskiptum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í dag viðstödd opnun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York. Á þinginu verður fjallað um stórar áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir að loknum heimsfaraldri; stríðsátök, fæðuskort og vaxandi fátækt, og loftslagsvána.

Í gær fundaði forsætisráðherra með António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Á fundi forsætisráðherra og Guterres var rætt um stríðið í Úkraínu, mikilvægi fjölþjóðasamvinnu á grundvelli alþjóðalaga, og um jafnréttismál. Forsætisráðherra ítrekaði mikilvægi þess að yfirstandandi orkukreppa mætti ekki verða til þess að hægja á aðgerðum í loftslagsmálum. Þvert á móti yrðu ríki heims að hraða grænum og réttlátum umskiptum. Þá gerði forsætisráðherra Guterres grein fyrir fyrirhugaðri formennsku Íslands í Evrópuráðinu, sem hefst í nóvember.

Forsætisráðherra var ásamt Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, annar tveggja aðalræðumanna á hliðarviðburði kjarnahóps um réttindi hinsegin fólks sem Ísland gerðist nýverið aðili að. Í ávarpi sínum lýsti forsætisráðherra þeim árangri sem náðst hefur á Íslandi í því að tryggja réttindi hinsegin fólks og lýsti áhyggjum yfir því bakslagi sem víða hefur orðið í þeirri baráttu. 

Þá flutti forsætisráðherra ávarp á leiðtogafundi um menntamál en Sameinuðu þjóðirnar beina nú sjónum sínum að mikilvægi menntunar til að leysa helstu áskoranir veraldarinnar og ná heimsmarkmiðunum. Leiðtogafundurinn fór fram í gær og á honum skuldbundu aðildarríki SÞ til þess að efla menntun ungs fólks.

Forsætisráðherra átti einnig fund með Sima Sami Bahous, nýjum framkvæmdastjóra UN Women, sem Ísland starfar náið með á vettvangi þróunarsamvinnu. Á fundinum ræddu þær m.a. samstarf Íslands og UN Women og bága stöðu kvenna og stúlkna í Úkraínu og Afganistan.

Forsætisráðherra flutti ávarp á kvenleiðtogafundi sem skipulagður var af forseta allsherjarþingsins, UN Women og Heimsþingi kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) þar sem hún gegnir formennsku. Í ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra m.a. um áhrif heimsfaraldursins á samfélög og stöðu jafnréttismála.

Þá áttu forsætisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, fund með Catherine Russell, framkvæmdastjóra UNICEF, sem er ein af áherslustofnunum í þróunarsamvinnu Íslands. Á fundinum var m.a. rætt um helstu samstarfsverkefni Íslands og UNICEF, stöðu barna í stríðshrjáðum löndum og áhrif loftslagsbreytinga á stöðu barna. Einnig var rætt um þær áskoranir sem alþjóðasamstarf og alþjóðastofnanir standa frammi og tengjast átökum um grundvallargildi alþjóðakerfisins, alþjóðlög, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið.  

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila