Kínverjar æfareiðir yfir hvatningu um að virða mannréttindi

G7-ríkin hvöttu Kína til að virða mannréttindi og lýðræði í ályktun fundarins í Cornwall fyrir helgi. Kínverska sendiráðið í London sendi þá frá sér yfirlýsingu um að G7-ríkin séu með „lygaáróður gegn Kína.“

Þegar leiðtogar G7-ríkjanna hittust í Cornwall um helgina, þá beindu þeir hvatningu til Kína í lokaályktun fundarins, sem farið hefur illa fyrir brjóst Kommúnistaflokks Kína. Í ályktuninni segja G7-ríkin:

„Við munum efla gildi okkar, meðal annars með því að hvetja Kína til að virða mannréttindi og grundvallarfrelsi, sérstaklega í tengslum við Xinjiang og þau réttindi, frelsi og mikla sjálfræði fyrir Hong Kong sem lögfest er í sameiginlegri yfirlýsingu Kína og Bretlands.“

Einnig segir í ályktun fundarins að ríkin munu bregðast gegn þeim, sem „grafa undan réttlátu og gegnsæju efnahagslífi heims.“

Í kínverska sendiráðinu í London eru menn æfareiðir vegna ályktunar G7-ríkjanna og telja að ríkin noti „málefni í tengslum við Xinjiang í stjórnmálalegu refspili.“ Í yfirlýsingu sendiráðsins segir, að Kína sé „friðelskandi land“ og „Við munum verja fullveldi okkar, öryggi og þróun hagsmuna okkar af einurð og berjast af staðfestu gegn alls kyns óréttlæti og brotum sem Kína er beitt.“

G7-ríkin krefjast nákvæmra rannsókna á uppruna veirunnar

Sendiráðið hvetur Bandaríkin og önnur G7-ríki til að „virða staðreyndir, skilja ástandið, hætta að rægja Kína, hætta að blanda sér í innri málefni Kína og hætta að skaða hagsmuni Kína.“

Jafnframt segja fulltrúar kommúnistaflokksins, að G7-ríkin eigi að hætta að draga stjórnmálakeilur á spurningunni um uppruna veirunna en í yfirlýsingu G7-ríkjanna er þess krafist að fullkomin og nákvæm rannsókn fari fram á uppruna veirunnar.

Sífellt fleiri fréttir hafa komið að undanförnu um nauðungarvinnu og brot á mannréttindum minnihlutahópa í Xinjiang. Kínverska ríkisstjórnin þvertekur fyrir nokkuð slíkt og segir engar endurhæfingarbúðir vera til í Xinjuang.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila