Kínverska sendiráðið í Stokkhólmi sendir hótunarbréf til blaðamanns á dagblaðinu Expressen

Kínverska sendiráðið hefur hótað blaðamanninum Jojje Olsson með „afleiðingum gjörða sinna” ef hann hættir ekki að skrifa fréttir um Kína.

Eftir hótunarbréf kínverska sendiráðsins til blaðamanns Expressen krefjast margir stjórnmálaleiðtogar þess, að Svíþjóð reki Gui Congyou, sendiherra Kína í Svíþjóð, úr landi. Utanríkisráðherra Svíþjóðar Ann Lind segir að bréf sendiráðsins séu „óásættanleg” bæði hótunarbréfið til blaðamannsins Jojje Olsson og einnig síðari bréf sendiráðsins, þar sem ráðist er með skömmum að sænskum stjórnmálamönnum fyrir að styðja Jojje Olsson. Fordæmir kínverska sendiráðið „rangar yfirlýsingar” sænskra stjórnmálamanna og segir „þá hafa óhreinar hendur fyrir að kasta skít á aðra.”

Hótunarbréfið til Jojje Olsson

Jojje Olsson er starfandi blaðamaður hjá dagblaðinu Expressen í Svíþjóð. Hann er staðsettur í Taiwan og er sérfræðingur í málefnum Kína og skrifar reglulega fréttir og greinar í blaðið. Hann hefur að undanförnu skrifað um herferð stjórnvalda í Kína gegn vestrænum fyrirtækjum eins og H&M sem ekki kaupa bómull frá þrælabúðum Úígúra í Kína. Á fimmtudaginn fékk hann óvenjulegt hótunarbréf í tölvupósti frá sendiráði Kína í Stokkhólmi með ásökunum um að „vera í samsæri gegn Kína með aðskilnaðarsinnum í Taiwan, að dreifa misvísandi upplýsingum til að æsa upp fjandsamlega afstöðu gegn Kína, að hann sé óheiðarlegur og siðferðilega spilltur.” Bréfið endar á setningunni:

„Við skorum á þig að hætta tafarlaust með rangar gjörðir þínar annars munt þú þurfa að taka afleiðingunum gjörða þinna.”

Spurður um hverjar slíkar afleiðingar gætu verið svarar Jojje: „Það er mjög, mjög algengt, að yfirvöld Kína stundi persónulegar árásir til að eyðileggja líf viðkomandi með rógburði og þeir ráðast gegn boðberum frétta sem er þeim ekki að skapi. Þeir geta hafið ófrægingarherferð um mig til að eyðileggja trúverðugleika minn. Það getur líka verið spurning um internetárásir og að þeir komist yfir gögn um mig á netinu.”

Ebba Bush Thor formaður Kristdemókrata lengst t.v. ásamt Jimmie Åkesson formanni Svíþjóðardemókrata t.h. krefjast þess, að Gui Congyou, sendiherra Kína í Svíþjóð ( í miðju) verði vísað burt frá Svíþjóð vegna ólöglegra hótunarbréfa til blaðamanna.

Samtök fréttamanna segja að kæra eigi bréfið til lögreglunnar

Erik Halkjaer formaður Svíþjóðardeildar alþjóða samtaka Fréttamanna án landamæra hefur lesið bréfið. Hann segir að „fyrstu tvær setningarnar eru beint óþægilegar, þetta vill maður ekki sjá sem starfandi blaðamaður og rannsakandi. Það er allt í lagi að sendiráðið sé ósammála fréttum hans en það er hægt að tjá sig á ýmsa vegu. Þetta er ekkert nema óhuggulegt hótunarbréf. Síðasta setningin er að auki hótun sem ég meina að eigi að kæra til lögreglunnar.”

Halkjaer finnst að yfirvöld í Svíþjóð þurfi að vera harðari í sambandinu við Kína. „Það er augljóst, að það sem ríkisstjórnin hefur gert eins og að kalla sendiherrann til utanríkisráðuneytisins, breytir engu, þeir halda þessu áfram. Samtímis er sænski ríkisborgarinn Gui Minhai í 2 000 daga fangelsi í Kína og ekkert gerist. Augljóslega verður sænska ríkisstjórnin að verða harðari við Kína.”

Hótanir gegn blaðamönnum liður í alþjóðastefnu Kína

Jojje Olsson finnst linkind vera gagnvart Kína. Hann segir „Ég held að ef það hefði verið rússneska sendiráðið sem sendi þetta bréf hefðu viðbrögð sænskra yfirvalda orðið mun harðari. Enn þá er gerður munur og ekki brugðist eins hart við kínverska sendiráðinu sem er með hótanir og reynir að hafa bein áhrif.”

Samtökin Fréttamenn án landamæra hefur sent frá sér skýrslu um framkomu Kína gagnvart blaðamönnum bæði á alþjóðavísu og í Svíþjóð. „Það er liður í alþjóðastefnu Kína að hóta blaðamönnum á þennan hátt” segir Erik Halkjaer.

Jojje Olsson segir að Kínverjarnir hafi sett brugðið sjálfum sér með bréfinu og að bréfið sé merki um vaxandi örvæntinu yfirvalda Kína vegna neikvæðrar umfjöllunar um landið. „Þeir segja að ég geti ekki verið neinn sérfræðingur í málefnum Kína, þar sem ég hef ekki búið þar í fimm ár. Ég hef búið á Taiwan á þeim tíma og með því að halda þessu fram eru þeir að segja að Taiwan sé ekki hluti af Kína, þannig að þeir detta um sjálfa sig.”

Að minnsta kosti þrír stjórnmálaflokkar í Svíþjóð krefjast brottrekstrar kínverska sendiherrans frá Svíþjóð. Svíþjóðardemókratar, Kristdemókratar og Vinstriflokkurinn. Sendiherrann svaraði með því að ásaka flokkana um að vera með óhreinar hendur af því þeir væru að „ausa leðju á Kína.” Framhald kemur.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila