Efling lagði fram tilboð í kjaradeilunni

Á fundi samninganefndar Eflingar og Reykjavíkurborgar í morgun lagði Efling fram tilboð í kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg. Á fundinum var rætt um tilboð Eflingar en ekki hefur verið gefið upp hver útfærsla þess sé.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar á morgun en forsvarsmenn saminganefndar Reykjavíkurborgar segja að tilboðið verði skoðað sem heildstætt innlegg inn í þær samningaviðræður sem fara fram á morgun.

Sem fyrr segir hafa deiluaðilar verið boðaðir á fund á morgun kl.10:00 í húsnæði Ríkissáttasemjara en eins og kunnugt er stendur ótímabundið verkfall starfsmanna Reykjavíkurborgar yfir. Verkfallið hefur haft talsverð áhrif, meðal annars á heimaþjónustu við aldraða og fatlaða.

Þá hafa skólastjórnendur áhyggjur af því að ef verkfallið dragist á langinn muni þurfa að loka skólum þar sem ræstingum sé ekki sinnt á meðan verkfalli stendur. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila