Komið í veg fyrir hryðjuverk í Stokkhólmi um páskana– afghanskt par handtekið fyrir að skipuleggja ódæði

Merki sænsku leynilögreglunnar Säpo sem afstýrði hryðjuverki í Stokkhólmi á páskunum.

Sænska leynilögreglan og ríkissaksóknarinn handtóku par fyrir páska, mann og konu á fertugsaldri frá Afghanistan, sem búsett eru í Norður-Stokkhólmi. Var parið langt komið með áætlun um að fremja hryðjuverk í Stokkhólmi. Með handtökunni segja yfirvöld, að komið hafi verið í veg fyrir ódæðisverk sem fremja átti í Stokkhólmi. Frá þessu greinir Dagens Nyheter.

Per Lindqvist ríkissaksóknari segir í viðtali við DN að hjúin voru handtekin 2. apríl og að margvíslegar ástæður lágu að baki handtökunni þann dag. Handtökuskipun var gefin út á skírdag og hjúin handtekin um morguninn föstudaginn langa. „Við höfum unnið að þessu máli í lengri tíma og náðum að tryggja mikið magn upplýsinga frá netinu“ segir Lindqvist. Talið er að parið hafi strax eftir áramótin hafist handa við undirbúning hryðjuverksins sem núna tókst að koma í veg fyrir með handtökunni.

Leggja verður fram formlega ákæru fyrir 19. apríl en saksóknarinn telur að lengri tíma þurfi til að klára rannsóknina. „Það þarf að halda margar yfirheyrslur og skilgreina mikið magn af upplýsingum, sem þýðir að rannsókninni mun ekki ljúka fyrr en í sumar.“

Bæði maðurinn og konan neita að þau hafi gert neitt brotlegt af sér og hafa fengið tilskipaða verjendur. Þau hafa ekki áður komist í kast við lögin í Svíþjóð. Þau hafa búið í Svíþjóð síðan 2017 og bjuggu áður í höfuðborg Írans Tehran. Landvistarleyfi þeirra í Svíþjóð rennur út í september 2023.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila