Unnið að því að auka viðbúnað hérlendis vegna Kórónaveirunnar

Viðbragðsaðilar vinna að því markmiði að auka enn á viðbúnað vegna útbreiðslu Kórónaveirunnar um heimsbyggðina. Þetta segir í samantekt almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra í kjölfar fundar deildarinnar með viðbragðsaðilum.

Fram kom á fundinum að til skoðunar sé sá möguleiki að takmarka umferð ferðamanna frá Kína hingað til lands.

Skipaður hefur verið vinnuhópur sem hefur það hlutverk að útfæra slíkar takmarkanir komi til þeirra, en meðal þess sem verið er að kanna eru lagalegar hliðar slíkra aðgerða.

Þá kom fram á fundinum að opinberar tölur um fjölda smitaðra séu rúmlega 71.000 og hafa rúm 1700 látist vegna veirunnar. Rétt er þó að taka fram hér að tölur um fjölda smitaðra og látna er mjög á reiki svo ekki sé fastar að orðið kveðið.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila