Stjórnmálamenn í Danmörku vilja opna landamærin – en ekki við Svíþjóð

Nokkrir stjórnmálaflokkar í Danmörku vilja opna landamærin fyrir þýskum og norskum ferðamönnum í sumar en ekki fyrir sænskum. Á danska þinginu ríkir mikill samhugur um að opna landið fyrir þýskum ferðamönnum og jafnframt eru ferðamenn frá Noregi velkomnir en Svíar geta beðið.

 „Ef það er ekki frambærilegt af heilsufarsástæðum að opna landamærin að Svíþjóð, þá geta Svíarnir verið heima en Þjóðverjarnir geta komið hingað” segir Jakob Ellemann-Jensen formaður Venstre.

Sören Pape Poulsen formaður Íhaldsflokksins hefur lagt fram tillögu um að ferjan á milli Osló og Kaupmannahafnar hefji ferðir að nýju.

„Við eigum að opna fyrir lönd sem hafa komið böndum á smitsjúkdóminn og þar sem útbreiðsla smits er lítil eins og í Noregi og Þýskalandi. Litlir bæir okkar á dönsku vesturströndinni eru afar háð ferðamannatímanum”.

Pernille Vermund formaður Borgaraflokksins er líka á því að greina á milli ferðamanna miðað við frá hvaða löndum þeir koma og vill hún að Danir sýni varkárni. 

„Það verður ekki einu sinni hægt að galopna landamærin – ekki einu sinni fyrir Þjóðverjum eða Norðmönnum. Við verðum að tryggja að þeir sem koma hingað geti gert það á öruggan hátt”.

 Einhverjir flokkar eins og Valkosturinn og Frjálslynda bandalagið segjast samt vilja sjá Svía sem ferðamenn í sumar. Formaður Frjálslynda bandalagsins Alex Vanopslagh segir að „Svíar og Þjóðverjar séu örugglega jafn færir um að haga sér skikkanlega”.

Danska ríkisstjórnin kynnir í síðasta lagi 1. júní hversu langt verður gengið í að opna landamærin. 
Sjá nánar hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila