Stefnt að aukinni heilbrigðisþjónustu fyrir börn með fíknivanda

Heilbrigðisráðuneytið, Landspítalinn, SÁÁ og Sjúkratryggingar Íslands hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að stefnt sé að því að auka heilbrigðisþjónustu við börn sem eiga við fíknivanda að etja. Í yfirlýsingunni segir meðal annars

 Nú þegar hefur verið ákveðið að styrkja verkferla við móttöku þessa sjúklingahóps á bráðamóttöku Landspítala. Áhersla verður lögð á flýtimeðferð þannig að þau börn sem í hlut eiga komist sem fyrst í viðeigandi framhaldsúrræði. Jafnframt er unnið að því að koma á fót sérstakri afeitrunardeild fyrir þennan hóp á Landspítala en slíkt úrræði hefur sárlega skort þar. Framhaldsmeðferð fyrir börn hefur hingað til verið veitt fyrst og fremst hjá SÁÁ og á Meðferðarstöðinni Stuðlum sem er úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda. Ekki verður breyting hvað það varðar. Á Sjúkrahúsinu Vogi verður framhaldsmeðferð barna áfram sinnt í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld á grundvelli samninga við Sjúkratryggingar Íslands og í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til meðferðar gagnvart þessum viðkvæma hópi.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila