Landsráð leggur fram tillögur um endurskoðun verkaskiptingu heilbrigðisstétta

Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu hefur skilað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögum sem snúa að endurskoðun verkaskiptingar heilbrigðisstétta. Tillögurnar fela í sér aðgerðir sem miða að því að gera ólíkum heilbrigðisstéttum kleift að nýta sérhæfni sína sem best við dagleg störf, færa minna sérhæfðu starfsfólki aukin verkefni og gera þannig heilbrigðisstarfsfólki kleift að verja sem mestum hluta vinnutíma síns við hámark sinnar hæfni. Ráðherra hefur samþykkt tillögur landsráðs.

Landsráð skiptir verkefnunum sem hafa þetta að markmiði í úrlausnarefni sem ráðist verði í innan sex mánaða annars vegar og innan tveggja ára hins vegar. Landsráð telur mörg tækifæri felast í endurskoðun á verkaskiptingu þar sem þjónusta við notendur sé höfð að leiðarljósi og aukin áhersla lögð á teymisvinnu. Endurskoðuninni er ætlað að þjóna hagsmunum heilbrigðiskerfisins með áherslu á gæði, öryggi og hagkvæmni þjónustunnar.

Í vinnu sinni leitaði landráðið til fjölmargra hagsmunaaðila til upplýsingaöflunar og til að heyra sjónarmið sem flestra. Fundað var með fulltrúum allra heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa, fulltrúum hjúkrunarheimila, menntastofnana og fulltrúum þriggja stærstu fagfélaganna. Áður höfðu hagsmunaaðilum verið sendir staðlaðir spurningalistar sem jafnframt var byggt á í vinnunni við að greina úrlausnarefnið. Landsráð hyggst funda með fleiri aðilum næstu þrjá mánuði. 

Fram kemur í erindi Landsráðs að verkaskipting heilbrigðisstétta hafi ekki verið endurskoðuð formlega og ekki sé skýr farvegur fyrir slíka endurskoðun. Slík skoðun fer helst fram þegar skortur er á tilteknum faghópum. Dæmi eru um að þekkingu á menntun og hæfni sumra faghópa sé áfátt innan stofnana. Mismunandi er hve oft starfslýsingar eru endurskoðaðar á heilbrigðisstofnunum og hvernig að því er staðið. Í sumum tilvikum fer slík endurskoðun fram án aðkomu þeirrar fagstéttar sem á að starfa í samræmi við starfslýsinguna. Teymisvinna er sums staðar ekki hluti af formlegri sí- og endurmenntun faghópa og munur er á því hvort og hvernig faghópar eru þjálfaðir saman til ákveðinna verka. Sumar fagstéttir þurfa að fá starfsfólk úr öðrum stéttum til að skrá upplýsingar um sjúklinga í sjúkraskrá þar sem þær skortir heimild til skráningarinnar og þykir þetta hamlandi fyrir hagkvæmni í verkaskiptingu. 

Smelltu hér til þess að skoða nánar niðuirstöður og tillögur Landsráðs

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila