Leggja fram drög að reglugerð sem fellir úr gildi eldri reglugerðir á sviði barnaverndar

Mennta og menningarmálaráðuneytið hefur lagt fram drög að reglugerð sem miðar að því að fella út eldri reglugerðir á sviði barnaverndar. Í umsögn með drögunum kemur fram að þessi leið sé farin vegna þess að ný barnaverndarlög innihaldi nýjar áherslur, breytingar á kæruúrræðum og fleiri þáttum sem snúa að barnavernd. Því séu þær regugerðir sem fyrirhugað er að fella úr gildi orðnar úreltar og eigi ekki við.

Lagt er til að fella eftirfarandi reglugerðir brott:

1. Reglugerð um tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu um vernd barna og ungmenna. Reglugerðin var sett á grundvelli eldri laga um vernd barna og ungmenna. Í reglugerð um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga sem sett er á grundvelli gildandi barnaverndarlaga er fjallað um barnaverndarúrræði á ábyrgð sveitarfélaga, þ.m.t. um tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu. Í reglugerðinni er fjallað almennt um úrræðin sem og um ferli leyfisveitinga með ítarlegri hætti en gert er í reglugerð þeirri sem lagt er til að fella brott.

2. Reglugerð um barnaverndarstofu með síðari breytingum. Með lögum um Barna- og fjölskyldustofu samþykkti Alþingi að Barnaverndarstofa yrði lögð niður og í stað hennar tæki til starfa ný ríkisstofnun, Barna- og fjölskyldustofa. Barnaverndarstofa tók upphaflega til starfa í kjölfar breytinga sem gerðar voru með lögum um breytingu á lögum um vernd barna og ungmenna. Barnaverndarstofa starfar því ekki lengur og rétt er að leggja til að fella brott reglugerð um starfsemi hennar.

3. Reglugerð um ráðstöfun barna í fóstur. Reglugerðin var sett á grundvelli eldri laga um vernd barna og ungmenna sem hafa verið felld úr gildi. Í reglugerð um fóstur sem sett er á grundvelli gildandi barnaverndarlaga er fjallað almennt um fóstur, leyfi til að taka barn í fóstur, námskeið, ráðstöfun barns í fóstur, fósturforeldra og fleiri atriði með ítarlegri hætti en gert er í reglugerð um ráðstöfun barna í fóstur frá 1996 og því er talið rétt að leggja til brottfall hennar.

4. Reglugerð um kærunefnd barnaverndarmála. Með tilkomu úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála voru nokkrar sjálfstæðar stjórnsýslunefndir, þ.m.t. kærunefnd barnaverndarmála sameinaðar í eina úrskurðarnefnd. Við gildistöku laganna voru jafnframt gerðar breytingar á barnaverndarlögum. Um málsmeðferð fyrir nefndinni er fjallað með ítarlegum hætti í lögunum og því eðlilegt að leggja til að fella brott reglugerð um kærunefnd barnaverndarmála enda hefur hún ekki starfað sem sjálfstæð nefnd síðan að úrskurðarnefnd velferðarmála tók til starfa.

Deila