Leggja til aukið samstarf við Færeyjar á sviði viðskipta, heilbrigðismála og menntamála

Guðlaugur Þór Þórðarson kynnti Höllu Nolsøe Poulsen, sendimanni Færeyja á Íslandi, skýrsluna.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra skipaði í mars á þessu ári starfshóp til að kortleggja tvíhliða samskipti Íslands og Færeyja og gera tillögur um áþreifanlegar aðgerðir eða verkefni til efla enn frekar tengsl þjóðanna. Afraksturinn er kynntur í skýrslunni Samskipti Íslands og Færeyja – Tillögur til framtíðar sem út kom í dag.

Guðlaugur segir hagsmuni þjóðanna tveggja fara oft saman og því verði samvinna landanna báðum hagsæl.

Íslendingar og Færeyingar eru nánir grannar, við eigum sameiginlegan uppruna og um margt samþætta sögu. Hagsmunir okkar sem fámennra eyþjóða fara oft saman og samvinna í hagsmunagæslu er báðum til hagsbóta,“ segir Guðlaugur Þór í aðfaraorðum sínum í skýrslunni.

Margvíslegt samstarf er á milli Íslands og Færeyja, bæði formlegt og óformlegt og líka á norrænum eða vestnorrænum vettvangi. Hins vegar er óumdeilt að fjölmörg sóknarfæri eru í að efla enn frekar tvíhliða tengsl og samstarf á milli þessara grannþjóða, ekki síst á vettvangi efnahags-, menningar- og stjórnmála. Hópurinn lagði því áherslu á þau svið þar sem lítið er um núverandi tvíhliða samstarf að ræða en einnig þar sem aðgerða er þörf til að efla samvinnu. Tillögurnar lúta meðal annars að eftirfarandi þáttum:

  • Að samstarf Færeysk – íslenska verslunarráðsins verði formfest með reglulegum fundum og aðkomu viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
  • Að stjórnvöld stuðli að samtali á milli flutningsaðila og fyrirtækja í útflutningi á milli ríkjanna með það að markmiði að samtengja með skilvirkari hætti flutningsleiðir fyrir ferskvöru.
  • Að stjórnvöld leitist eftir því að gera rammasamning við Færeyjar um eflingu bláa hagkerfisins í löndunum báðum.
  • Að tvíhliða markaðssamstarf verði aukið til þess að kynna löndin sem ákjósanlegan áfangastað fyrir íbúum landanna tveggja.
  • Að heilbrigðisyfirvöld í löndunum geri úttekt á því á hvaða sviðum og með hvaða hætti megi auka nýtingu Færeyinga á heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa á Íslandi.
  • Að settur verði á fót vísinda- og menntasjóður til að styrkja námsmenn, rannsakendur og kennara til vistaskipta, samstarfs og sameiginlegra verkefna.
  • Að útbúið verði nútímalegt námsefni fyrir íslenska grunnskóla þar sem fjallað yrði um Færeyjar fyrr og nú með heildstæðum hætti og lögð áhersla á tengsl Íslands og Færeyja.
  • Að komið verði á fót samstarfi miðstöðva skapandi greina með það að markmiði að auka samstarf íslenskra og færeyskra listamanna.

Markmið okkar er að hrinda þessum tillögum í framkvæmd á næstu árum og renna þannig sterkari stoðum undir samband þjóðanna og á sama tíma skapa forsendur fyrir nýjum og spennandi tækifærum,“ segir Guðlaugur Þór.

Starfshóp utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipuðu Júlíus Hafstein, sem jafnframt var formaður hans, Elin Svarrer Wang, Gísli Gíslason og Sif Gunnarsdóttir. Starfsmaður hópsins var Andri Júlíusson.

Skýrsluna Samskipti Íslands og Færeyja – Tillögur til framtíðar má lesa í heild sinni hér á vef Stjórnarráðsins.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila