Leggja til þingsályktunartillögu um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara ásamt fleiri þingmönnum úr nokkrum þingflokkum.

Fram kemur í tilkynningu að tillagan gangi út á að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Markmið úttektarinnar verði að greina hverju sé helst ábótavant í tryggingavernd og úrvinnslu tjóna og að draga fram leiðir til úrbóta.

Fram kemur í greinargerð að tjón af völdum náttúruhamfara er oft umtalsvert og getur reynst hvort sem er einstaklingum eða rekstraraðilum ofviða og þar með ógnað heilu samfélögunum. Tryggingavernd vegna náttúruhamfara er því mikilvæg sem og skilvirk og sanngjörn úrvinnsla í kjölfar hamfara.

„Tímabært er að leggja mat á samspil ólíkra þátta og hvernig allar þær mikilvægu aðgerðir sem komin er reynsla á vinna saman, hvort einhvers staðar séu göt í kerfinu og hvar tilefni sé til úrbóta. Þá er brýnt að tryggja að jafnræðis sé gætt þegar tekist er á við afleiðingar náttúruhamfara. Það þarf að nýta uppsafnaða þekkingu og reynslu til frekari framfara.“ segir í tilkynningunni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila