Leigubílstjórar æfir yfir frumvarpi um leigubílaakstur

Gunnlaugur Ingvarsson

Leigubílstjórar eru mjög ósáttir við frumvarp sem nú liggur fyrir á þingi sem miðar að því að opna á að starfsemi Uber geti starfað hér á landi, þ,e að ekki verði lengur nauðsynlegt að starfa á sérstakri leigubílastöð. Gunnlaugur Ingvarsson leigubílstjóri á Hreyfli var gestur Péturs Gunnlaugssonar í síðdegisútvarpinu í dag en hann segir að með þessu sé verið að koma aftan að leigubílstjórum.

Hann bendir meðal annars á að þau lög sem gilda um leigubílaakstur á Íslandi séu með ákveðnum fjöldatakmörkunum sem geri það að verkum að sett er ákveðið hámark á þann fjölda sem getur starfað við greinina og það sé fyrst og fremst til þess að tryggja að menn geti haft leigibílaakstur að lifibrauði sínu.

Þá sé málið hreinlega spurning um gæði þjónustunnar og öryggi farþega. Segir Gunnlaugur að hér á landi hafi það að vera undir merkjum leigubílastöðva tryggt að til starfsins veljist mjög hæft fólk sem leggi metnað og alúð í að tryggja vellíðan farþega. Leigubílakerfi eins og Uber, sem byggt sé á notkun apps sé allt annars eðlis.

Gunnlaugur telur hættu á að verði aksturinn gefin frjáls geti óvandaðir einstaklingar ekið leigubílum í annarlegum tilgangi. Bendir Gunnlaugur á að hér á landi sé það óþekkt að svindlað sé á farþegum leigubíla eða þeir beittir ofbeldi.

Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila