Lestur drengja er ein stærsta áskorun sem skólakerfið stendur frammi fyrir

Borgarstjórn hefur samþykkt einróma að vísa tillögu Sjálfstæðisflokks um úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í leik- og grunnskóla til skóla- og frístundasviðs til frekari úrvinnslu.

Eyþór Arnalds borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að með því að leggja tillöguna fram hafi sá árangur náðst að vekja athygli á vandanum og næsta skref sé að vinna á honum bug, em hafi verið megintilgangur tillögunnar.

Lestur drengja er ein stærsta áskorun sem skólakerfið stendur frammi fyrir. Um það er ekki lengur deilt. Aðvaranir um alvarlega stöðu í þessum málum hafa blasað við síðasta áratuginn. Brottfall drengja á efri skólastigum kann að skýrast að miklu leyti af kynbundnum mun í lesskilningi á fyrstu skólastigum,“ sagði Eyþór m.a. í borgarstjórn við upplestur bókunar Sjálfstæðisflokks við málið og bætti við: „Tölurnar tala sínu máli og hafa þær gert það um langt skeið. Það er hagur alls samfélagsins að ná til þeirra sem dragast aftur úr. Hvert barn skiptir máli. Þegar svo stór hópur stendur höllum fæti eins og raun ber vitni á  borgarstjórn að bregðast við af festu og ábyrgð. Lestur og lesskilningur er undirstaða menntunar og framtíðarstarfa.“

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að staða drengja í skólakerfinu hafi versnað undanfarna tvo áratugi á ýmsum skólastigum. Þá segir jafnframt að nú blasi „við mikill kynjahalli í stærstu háskólum landsins þar sem hallar mjög á annað kynið. Til marks um það séu 73% nemenda sem stunda framhaldsnám við Háskóla Íslands konur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila