Lífeyrissjóður Vestmannaeyja braut gegn lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Við yfirferð fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, í febrúar 2022, á gögnum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja (LSV) um sundurliðun fjárfestinga vegna fjórða ársfjórðungs 2021 kom í ljós að eign séreignardeildar LSV í einum verðbréfasjóði hafði farið umfram lögbundin mörk um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (skyldutryggingu lífeyrisréttinda).

Hóf fjármálaeftirlitið í kjölfarið frekari skoðun á málinu. Á grundvelli gagna og upplýsinga sem fjármálaeftirlitið aflaði komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að eftirlitskerfi lífeyrissjóðsins hefði ekki verið fullnægjandi hvað
varðaði vöktun á vægi tiltekinna eigna af heildareignum, m.a. til að tryggja að vægi þeirra færi ekki yfir lagaleg takmörk, sbr. 1. mgr. 36. gr. e. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Af þeim sökum hefði lífeyrissjóðurinn hvorki tilkynnt fjármálaeftirlitinu um brotið né gripið til ráðstafana til úrbóta.


Fjármálaeftirlitið gerði því eftirfarandi athugasemdir:


• Að eign LSV í tilteknum verðbréfasjóði hefði farið yfir 20% lögbundið hámark í sama útgefanda sem hlutfall af heildareignum, sbr. 3. mgr. 39. gr.
b. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
• Að LSV hefði ekki efnt tilkynningarskyldu sína og tilkynnt brotið tafarlaust til fjármálaeftirlitsins, sbr. 37. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
• Að LSV hefði ekki tryggt vöktun á umræddum mælikvarða, þ.e. á lögbundnu hámarki í einstökum verðbréfasjóðum sem hlutfalli af heildareignum, og að skjalfestum innri ferlum hvað vöktun á þessum tiltekna
mælikvarða varðaði hefði verið ábótavant, sbr. 1. mgr. 36. gr. e. laga um
skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
LSV hefur nú þegar komið eign sinni í umræddum verðbréfasjóði undir lögbundin
mörk.

Deila