Lilja Alfreðsdóttir ávarpaði UNESCO – Erum ákaft stuðningsfólk fjölþjóðahyggju

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, opnaði fund evrópskra landsnefnda Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna – UNESCO sem haldinn er í fyrsta sinn hér á landi dagana  8.-10. maí. 

Í ávarpi sínu fagnaði ráðherra því að Ísland hefði nú tekið sæti í framkvæmdastjórn UNESCO og talaði þar fyrir jafnrétti, menningarlegri fjölbreytni, frelsi fjölmiðla og mannréttindum.

„Ísland hefur lengi verið hluti af UNESCO og við erum ákaft stuðningsfólk fjölþjóðahyggju. Við vinnum sleitulaust að markmiðum UNESCO og gildum stofnunarinnar og á Íslandi deilum við sýn UNESCO um að stuðla að friði og öryggi á grundvelli samvinnu ríkja með samtali á vettvangi menningar, menntunar , samskipta og vísinda,“ segir Lilja, en Ísland var kjörið í framkvæmdanefnd UNESCO í fyrra. 

Fundurinn er að þessu sinni haldinn í samvinnu íslensku og kanadísku landsnefndanna. Á fundinum verður m.a. lögð sérstök áhersla á jafnréttismál, menningu og móttöku flóttamanna frá Úkraínu í löndum Evrópu. 

Eliza Reid, forsetafrú og höfundur bókarinnar Sprakkar, mun ávarpa fundarmenn í sérstakri dagskrá um jafnréttismál.

Þá munu fulltrúar Vigdísarstofnunar, alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar á vettvangi UNESCO, fjalla um vinnu sína í fjölþjóðlegum stýrihópi um áratug frumbyggja- og fámennistungumála (e. International Decade of Indigenous Language) auk þess sem kynnt verður fjölbreytt starf sem Reykjavík bókmenntaborg UNESCO stendur fyrir.

Einnig verður varpað ljósi á viðamikið starf GRÓ – þekkingarmiðstöðvar um þróunarsamvinnu sem starfar hér á landi undir merkjum UNESCO og verður sérstaklega fjallað um Jafnréttisskólann. 

Fulltrúar landsnefnda UNESCO frá 32 löndum sækja fundinn á Íslandi og m.a. verða heimsótt svæði hér á landi sem hlotið hafa viðurkenningu stofnunarinnar sem einstök svæði á heimsvísu; Reykjanes UNESCO jarðvangur og Þingvellir sem eru á Heimsminjaskrá UNESCO.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila