Norrænir ráðherrar flugu til Washington til þess að ræða loftslagsmál og málefni innflytjenda

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, stýrði fundi norrænu fjármálaráðherranna í Washington, sem fram fór á dögunum samhliða ársfundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans sem ráðherrarnir sóttu einnig. Fundinn sóttu ráðherrar Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Grænlands, og Noregs auk staðgengils fjármálaráðherra Svíþjóðar.

Loftslagsmál voru áberandi í dagskrá fundarins, þar á meðal hvernig fylgja ætti eftir sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna frá því í ágúst, um grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Einnig var starf alþjóðlegs vettvangs fjármálaráðherra um loftslagsmál, CAPE, til umræðu, sem Ísland, Finnland, Svíþjóð, Noregur og Danmörk eiga aðild að.

Ráðherrarnir voru sammála um að mikilvægt væri að þeirra mati að Norðurlöndin væru leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ritið Nordic Economic Policy Review, Climate Policies in the Nordic Countries – a cost benefit approach, sem gefið var út í maí 2019, var lagt til grundvallar í umræðum um það hvernig norrænu ríkin gætu best orðið að liði í alþjóðlegri stefnumörkun og aðgerðum.

Ályktaði fundurinn að þar gegndi tækniþróun lykilhlutverki, en einnig var rætt um möguleika á að flytja út hugmyndir að loftslagsvænum hvötum, t.d. gegnum skattkerfið.

Aðlögun innflytjenda að norrænum vinnumarkaði var einnig á dagskrá fundarins, en fjármálaráðherrarnir samþykktu árið 2017 að fjármagna verkefni á vegum norrænu ráðherranefndarinnar undir heitinu Integrating immigrants into the Nordic labor markets.

Voru niðurstöður verkefnisins kynntar síðastliðið vor. Fram kom á fundinum að þau ríki sem hafa tekið á móti flestum flóttamönnum síðustu árin vilja vinna gegn hættu á félagslegri einangrun þeirra. Þau leggi því mikla áherslu á að innflytjendur fái tækifæri til að aðlagast á nýjum stað til að geta tekið virkan þátt í vinnumarkaði og samfélagi.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila