Lofuðu leikskólaplássi fyrir öll 12 mánaða börn gegn betri vitund

Þeir flokkar sem sitja í meirihluta í borginni fyrir utan Framsóknarflokk lofuðu kjósendum sínum því að öll 12 mánaða börn sem á þyrftu að halda fengju leikskólapláss í haust þrátt fyrir að vita að það gæti ekki gengið eftir. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Marta segir að þetta hafi borgarmeirihlutinn lagt fram í borgarráði þann 3.mars á þessu ári og þá hafi meirihlutanum verið það ljóst að það gæti ekki gengið eftir. Þrátt fyrir þá vitneskju hafi fulltrúar þessara flokka gengið fram í kosningabaráttunni í vor og haldið þessu kosningaloforði á lofti, vitandi það að ekki væri mögulegt að standa við það.

„í rauninni var verið að lofa þarna leikskólaplássum sem ekki voru tiltæk, til dæmis á Nauthólsvegi og í svokölluðum ævintýraborgum sem áttu að vera bráðabirgðaúrræði og það er ansi dapurt ef að bráðabirgðaúrræðin bregðast líka“

Í ljósi þessarar stöðu óskaði Marta eftir því í ágúst síðastliðinn að skóla og frístundaráð yrði kallað saman til fundar svo hægt væri að bregðast við vandanum.

„þar lögðum við Sjálfstæðismenn fram sex tillögur til úrbóta og á þeim fundi kom í ljós að það voru 200 leikskólarými laus en ástæðan fyrir því að þau voru ekki notuð voru vegna manneklu, vitandi þetta hefði meirihlutinn strax eftir kosningar átt að manna leikskólanna en ekki senda borgarfulltrúana í sumarfrí“ segir Marta.

Hún segir leikskólavandann ekki verða leystann með einhverri einni lausn heldur þurfi fjölbreyttar lausnir til.

„við þurfum til dæmis að fjölga sjálfstætt starfandi leikskólum, við þurfum að efla dagforeldrakerfið, koma upp foreldrareknum leikskólum og fjölda annara úrræða, það þarf að setjast yfir þetta og leita lausna“segir Marta.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila