Lögreglumaður í Gautaborg segir „niðurlægingarránin að mestu verk innflytjenda”

Ný tegund rána í Svíþjóð, þar sem aðallega unglingar velja sér oftast ung, einsömul fórnarlömb til að ræna og kyssa sér á tær, misþyrma og kasta þvagi á, kvikmynda og setja myndböndin út á félagsmiðla til að auðmýkja og niðurlægja fórnarlambið, hafa verið útskýrð af Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar sem „afleiðing af skattalækkun fyrri ríkisstjórnar Svíþjóðar.“ Fáir botna í hvað forsætisráðherrann og formaður sósíaldemókrata í Svíþjóð er að fara með slíkri útskýringu og er Anders Karlsson lögreglumaður í Gautaborg einn í þeirra hópi.

Hann skrifar í Göteborgs Posten nýlega, að þessi hrottalegu rán á sænskum börnum sé afleiðing of mikls innflutnings hælisleitenda til Svíþjóðar en alls ekki skattalækkana. Segir lögreglumaðurinn að lausn vandans sé fólgin í að minnka fólksinnflutninginn.

„Niðurlægingin er framkvæmd á sem viðurstyggilegastan hátt og kvikmynduð. Afbrotamennirnir í þessum ránum eru að stærstum hluta innflytjendur. Já, þannig eru staðreyndirnar, við þurfum ekkert að vera að blanda tilfinningum eða öðrum skoðunum í málið, raunveruleikinn lítur þannig út.“

Karlsson bendir á að þótt forsætisráðherrann hafi sagt að stjórnmálamenn  „hafi ekki séð vaxandi afbrot í siktinu,“  hafi lögreglan í lengri tíð reynt að vekja athygli á einmitt þeirri þróun:

„Ég og starfsfélagar mínir höfum séð þessa þróun koma í mörg ár og það hefur ekkert að gera með skattalækkanir fyrir 14 árum síðan. Sennilega búum við í barnalegasta landi í heimi, þar sem eyðilegging velferðarkerfisins hefur ætt áfram á undanförnum árum.“

Samkvæmt lögreglumanninum hefur „gríðarlegur“ innflutningur hælisleitenda haft í för með sér vaxandi ættarsamfélög ásamt miklu magni af eiturlyfjum og vopnum. Segir hann að kynferðisafbrot og rán á einstaklingum hafi stóraukist samhliða innflutningi hælisleitenda. Alls ekki er um að ræða að innflytjendur séu allir afbrotamenn en hins vegar séu afbrotamenn slíkra glæpa oftast af erlendu bergi brotnir.

Karlsson telur aðlögun innflytjenda í Svíþjóð hafa mistekist og að aðskilnaður hópa aukist stöðugt. Segir hann það ekki óvanalegt í starfinu að rekast á glæpamenn með tíu mismunandi nöfn eða hryðjuverkamenn á lista leynilögreglunnar.

„Það er kominn tími til að ríkið taki ábyrgð á málunum. Sænskir ríkisborgarar eiga rétt að krefjast þess að öryggið í landinu verði tryggt. Annars er hætt við að málin enda illa og að traustið hverfi alfarið úr samfélaginu.“

Sjá nánar hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila