Bílþjófi í annarlegu ástandi veitt eftirför

Lögreglan handtók konu í dag á stolinni bifreið eftir að hafa veitt konunni eftirför um götur borgarinnar. Í tilkynningu frá lögreglu segir að konan sem var í mjög annarlegu ástandi hafi stolið bifreiðinni við Sundahöfn og ekið þaðan á brott um um götur borgarinnar með lögregluna á hælunum.

Þá segir í tilkynningu lögreglu að konan hafi virt fáar ef þá nokkrar af þeim umferðarreglum sem í landinu gilda og þótti mildi að ekki hafi hlotist stórslys af glórulausu háttarlagi konunnar, en hún ók meðal annars gegn rauðu ljósi og munaði minnstu að það yrði til þess að tveir bílar skullu saman. Að lokum tókst þó að stöðva för hennar í Lækjargötu, nærri Vonarstræti og var hún handtekin og flutt á lögreglustöð.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila