Lögregla leitar vitna vegna húsbílabruna

Lögreglan óskar eftir því að þeir sem kunna að hafa verið á ferð nálægt Torfastöðum í Grafningi um á milli kl.22:00 og fram á miðnætti síðastliðins föstudagskvölds gefi sig fram við lögreglu. Beiðni lögreglu er til komin vegna rannsóknar á máli þar sem húsbíll brann til kaldra kola með þeim afleiðingum að karlmaður á fertugsaldri lést.

Lögregla vill sérstaklega ná tali af þeim sem kunna að hafa orðið vitni að brunanum eða hafa aðra vitneskju um málið. Eins og fram hefur komið barst Neyðarlínunni tilkynning um eldinn um klukkan hálftólf á föstudagskvöld en svo virðist sem tilkynning hafi af óljósum ástæðum ekki borist lögreglu og því kom lögreglan ekki á staðinn fyrr en morguninn eftir þegar annar vegfarandi hafði samband við lögreglu.

Í bílnum sem brann fundust líkamsleifar karlmanns en ekki hafa verið borin kennsl á lík hans, en eins og fyrr segir er talið að maðurinn hafi verið á fertugsaldri.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila